Metfjöldi íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja í Berlín

Yfir 100 Íslendingar eru nú staddir í sýningarhöllinni Messe Berlin í þýsku höfuðborginni.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, setti ITB ferðakaupstefnuna að þessu sinni. Mynd: ITB Berlin

Um 10 þúsund fyrirtæki frá 186 löndum taka þátt í hinni árlegu ITB ferðakaupstefnu sem nú stendur yfir í Berlín. Sem fyrr er Íslandsstofa þar með bás, á  sameiginlegu norrænu sýningarsvæði, og er 31 íslenskt ferðaþjónustufyrirtæki skráð til leiks. Hafa þau ekki áður verið jafnmörg.

Meðal sýnenda á íslenska básnum eru ferðaskrifstofur, hótel, flugfélag og afþreyingar­fyrirtæki. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsstofu þá er lögð áhersla á að hvetja ferðamenn og erlenda ferðaheildsala til þess að kynna sér ferðaþjónustu um land allt, árið um kring með ábyrgð og öryggi að leiðarljósi. Allt markaðsstarf á vegum Íslandsstofu er unnið undir merkjum Inspired by Iceland.

Í tengslum við ITB hefur Íslandsstofa kynnt fyrirhugað kynningarátak í tengslum við þátttöku Íslands í heimsmeistarakeppninni í fótbolta í Rússlandi kynnt fyrir þýsku blaðafólki. Er þar sérstök athygli vakin á því að Ísland er fámennasta þjóðin sem komist hefur í hóp keppenda í HM.

ITB stendur yfir fram á sunnudag og er stærsta ferðakaupstefnan sem haldin er í Evrópu. Til marks um mikilvægi hennar fyrir þýska ferðaþjónustu þá var það Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sem setti kaupstefnuna að þessu sinni.