Mikill áhugi á stöðu framkvæmdastjóra SAF

Eitt fyrsta verk nýrrar forystu Samtaka ferðaþjónustunnar er að fara yfir umsóknir um stöðu framkvæmdastjóra.

Hin nýja stjórn SAF: Pétur Þ. Óskarsson, Ívar Ingimarsson, Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður, Ingibjörg Ólafsdóttir, Jakob Einar Jakobsson og Ólöf R. Einarsdóttir. Mynd: SAF

Samtök ferðaþjónustunnar leita eftir nýjum framkvæmdastjóra en Helga Árnadóttir sem gegnt hefur stöðunni síðustu fjögur ár lætur af störfum í sumarbyrjun. Frestur til að sækja um rann út í vikunni og barst 41 umsókn samkvæmt upplýsingum frá SAF. Í auglýsingu þar sem staðan er auglýst segir að leitað sé að öflugum einstaklingi sem er tilbúinn að leggja sitt af mörkum við að leiða áframhaldandi uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu. Viðkomandi verður talsmaður samtakanna, stjórnar daglegum rekstri skrifstofunnar og sinnir samskiptum við stjórnvöld, hagsmunaaðila og félagsmenn. Gerð kjarasamninga, í samvinnu við Samtök atvinnulífsins, er einnig á borði framkvæmdastjórans.

Á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar sem fór fram á miðvikudag var ný forysta kjörin. Bjarnheiður Hallsdóttir var kosin formaður til næstu tveggja ára og nýir fulltrúar voru kjörnir í stjórn samtakanna. Það verður eitt fyrsta verk nýju stjórnarinnar að ráða samtökunum nýjan framkvæmdastjóra.