Norwegian ætlar að ná 17 milljörðum í hlutafé í nótt

Norska flugfélagið þarf á styrkja stöðu sína og leitar núna til stærstu eigendanna. Sérfræðingar eru þó ekki bjartsýnir á gang mála hjá þessum umsvifamesta flugfélagi Norðurlanda.

norwegian 3
Myndir: Norwegian

Stærstu hluthöfum norska flugfélagsins Norwegian býðst nú að kaupa hlutabréf í félaginu að virði 1,3 milljarða norskra króna. Það jafngildir um 17 milljörðum íslenskra króna og hófst söfnunin seinnipartinn í dag og lýkur í fyrramálið. Samkvæmt tilkynningu frá Norwegian þá á hið aukna hlutafé að styrkja samkeppnisstöðu lággjaldaflugfélagsins og tryggja núverandi og komandi fjárfestingar.

Vöxtur Norwegian hefur verið mjög hraður síðustu ár og er félagið nú orðið það stærsta á Norðurlöndum. Umsvifin takmarkast þó ekki aðeins við flug til og frá Norðurlöndunum því félagið er með starfstöðvar í nokkrum Evrópulöndum, vestanhafs og í Argentínu. Reksturinn hefur hins vegar verið þungur og á síðasta ári tapaði félagið um 300 milljónum norskra króna, um 3,8 milljörðum íslenskra króna. Þetta ár byrjar líka illa og því hefur félagið lækkað afkomuspá sína en tapreksturinn er aðallega rakinn til hækkandi olíuverðs.

Græða bara í júlí

Michael O´Leary, forstjóri Ryanair, stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu, hefur ítrekað fullyrt að Norwegian sé eitt þeirra evrópsku flugfélaga sem eigi sér ekki langa framtíð og Karl Johan Molnes, frá verðbréfafyrirtækisins Norne Securities, er líka svartsýnn á framhaldið. Í viðtali við norska viðskiptablaðið Dagens Næringsliv nú í kvöld segir hann að það komi honum ekki á óvart að Norwegian verði að sækja aukið hlutafé en miðað við gang mála þá verði þetta ekki í síðasta skipti sem eigendurnir verði að láta aukið fjármagn í félagið. Máli sínu til stuðnins fullyrðir Karl Johan að í dag sé júlí eini mánuðurinn sem Norwegian er rekið með hagnaði og það gangi ekki til lengdar. Hann mælist því til að fyrirtækið leggi niður lengri flugleiðir og hætti við áform sín í Argentínu. „Þau verða líka að fá fleiri viðskiptaferðalanga um borð til að þéna peninga því að á bandaríska markaðnum er vitað að 13 prósent farþeganna standa undir um helmingi teknanna.“

Tekjurnar hafa hrunið

Johan Pedersen hjá Sydbank í Danmörku tekur í sama streng í viðtali við Børsen nú í kvöld og bendir á að tekjur Norwegian hafi hrunið á risavaxinn hátt síðustliðin ár. Hann býst þó ekki við að fargjöldin hækki á næstunni en segir að félagið kaupi sér ekki langan tíma í hlutafjárútboðinu sem lýkur í morgunsárið.

Myndi hafa áhrif á Icelandair og WOW

Í dag býður Norwegian upp á áætlunarferðir til Íslands frá Noregi, Svíþjóð, Bretlandi og Spáni og er því í beinni samkeppni við Icelandair og WOW air á nokkrum flugleiðum frá Keflavíkurflugvelli. Samkeppnin við íslensku flugfélögin er þó aðallega í ferðum yfir Atlantshafið enda flýgur Norwegian til nokkurra þeirra borga vestanhafs og í Evrópu sem eru hluti af leiðakerfum Icelandair og WOW air. Verðstefna Norwegian er líka ein helsta ástæða þess að fargjöld milli N-Ameríku og Evrópu hafa farið hratt lækkandi síðustu ár. Ef norska félagið dregur saman seglin eða hækkar fargjöldin hjá sér gæti það orðið til þess að verð á farmiðum frá Evrópu til Bandaríkjanna hækki almennt í verði. Þeirri breytingu myndu vafalítið forsvarsmenn margra samkeppnisaðila Norwegian fagna en þó kannski ekki opinberlega. 

Þess má geta haustið 2013 tók Túristi viðtal við Bjørn Kjos, forstjóra og stofnanda Norwegian. Þar ræddi hann meðal annars Icelandair, WOW air og Sterling Airlines. En Norwegian og Sterling áttu í harðri samkeppni í Skandinavíu á árunum 2005 til 2008.