Bjarnheiður nýr formaður Samtaka ferðaþjónustunnar

Bjarnheiður Hallsdóttir tekur við sem formaður SAF. Hún er fyrsta konan sem gegnir embættinu.

Bjarnheiður Hallsdóttir, nýr formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Mynd: Island.is

Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri Katla DMI, bar sigur úr býtum í formannskjöri á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar sem nú fer fram á Hótel Sögu. Þrír bauðu sig fram og fékk Bjarnheiður 72 atkvæðum fleiri en Þórir Garðarsson, framkvæmdastjóri Gray Line og fráfarandi varaformaður samtakanna og miðað við atkvæðamagn þá var mjótt á munum í kjörinu. Margeir Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri bílaleigunnar Geysis, var einnig í framboði til formanns.

Uppfært: Samkvæmt frétt Mbl.is þá var niðurstaðan í for­manns­kjör­inu sú að Bjarn­heiður fékk 44,72% at­kvæða, Þórir 44,62% og Mar­geir 10,65%. Það munaði því aðeins 0,1% á þeim tveimur fyrstu.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, sem hefur verið formaður SAF síðustu fjögur ár gaf ekki kost á sér á ný.

Á fundinum var einnig ný stjórn SAF kjörinn og munu þau Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé, rekstrarstjóri sölu- og markaðssviðs Kynnisferða, Ívar Ingimarsson, stofnandi og framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar Óseyri og Ólöf R. Einarsdóttir, eigandi Mountaineers of Iceland, taka sæti í stjórninni til næstu tveggja ára. Jakob Einar Jakobsson, framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar, var kjörinn til eins árs.

Þau Ingibjörg Ólafsdóttir, hótelstjóri Radisson Blu Hótels Sögu, og Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Samskiptasviðs Icelandair Group, sitja nú þegar í stjórn SAF, en þau voru kjörin til tveggja ára á aðalfundi samtakanna árið 2017.

Þórir Garðarsson og Bjarnheiður Hallsdóttir á aðalfundi SAF sem nú stendur yfir á Hótel Sögu.
Ný stjórn SAF.