Óvenjulegur febrúar hjá Icelandair

Öfugt við mánuðina á undan þá dró flugfélagið úr framboði í febrúar og farþegum fækkaði um nærri 10 þúsund.

icelandair 767 757
Mynd: Icelandair

Í febrúar í hittifyrra þá jók Icelandair framboð sitt á sætum um nærri fjórðung og aukning var 18% á sama tíma í fyrra. Í nýliðnum febrúar drógst framboðið hins vegar saman um 1% og hefur það ekki gerst lengi að félagið bæti ekki í á milli ára. Farþegum Icelandair fækkaði svo í febrúar um 5% sem eru þónokkur niðursveifla og í tilkynningu frá félaginu segir að samdráttinn megi að mestu leyti rekja til fækkunar farþega til Íslands. „Þar var eftirspurn ekki að aukast í takt við heildarframboðsaukningu á markaðinum,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Í heildina fækkaði farþegum Icelandair um nærri 10 þúsund í febrúar og miðað við ofannefnda skýringu frá flugfélaginu má gera ráð fyrir að erlendum ferðamönnum um borð í vélum félagsins hafi fækkað álíka mikið. Hvaða áhrif það hefur á heildarfjölda erlendra ferðamanna hér á landi kemur í ljós þegar Ferðamálastofa birtir sína talningu. En í febrúar í fyrra komu hingað rúmlega 148 þúsund erlendir ferðamenn.

Hafa ber í huga að inn í þeirri tölu eru útlendingar búsettir á Íslandi og líka farþegar sem nýta Keflavíkurflugvöll sem skiptistöð og koma því ekki inn í landið á milli flugferða yfir hafið.