Primera Air tekur við fluginu til Birmingham

Flugsamgöngur milli Íslands og næst fjölmennustu borgar Bretlands munu aðeins liggja niðri í nokkra mánuði.

Mynd: Primera Air

Í júní 2014 hóf breska lággjaldaflugfélagið Flybe áætlunarflug til Íslands frá Birmingham en lagði niður flugið níu mánuðum síðar. Um sama leyti fór Icelandair jómfrúarferð sína til Birmingham og tók því við keflinu frá Flybe. Eftir þrjú ár í Birmingham hafa stjórnendur Icelandair hins vegar ákveðið að láta gott heita og nýta flugflota félagsins í aðra áfangastaði. Birmingham dettur þó ekki út af leiðakerfi Keflavíkurflugvallar í langan tíma því í byrjun desember fer Primera Air sína fyrstu ferð milli Íslands og Birmingham og mun félagið bjóða upp á vikulegar brottfarir næsta vetur. Ódýrustu miðarnir kosta rétt um 10 þúsund krónur.

„Það gleður okkur að Reykjavík skuli vera fyrsti áfangastaður okkur í N-Evrópu í styttri flugferðum frá Bretlandi. Það hefur einnig táknræna merkingu fyrir flugfélag sem á rætur sínar að rekja til Íslands,“ segir Anastasija Visnakova, yfirmaður markaðsmála, í tilkynningu. En Primera Air er í eigu Andra Más Ingólfssonar.

Primera Air hefur verið stórtækt í leiguflugi um langt árabil en  mun innan skamms hefja Atlantshafsflug frá Birmingham og London Stansted til New York, Boston, Washington og Toronto. Auk þess ætlar félagið að bjóða upp á Spánarflug frá Bretlandi og sem fyrr segir bætast líka við vikulegar ferðir milli Íslands og Birmingham.