Sala á vetrarferðum næsta árs er komin á flug

Íslendingar eru í auknum mæli farnir að bóka ferðalög sín út í heim með meiri fyrirvara en áður. Ferðaskrifstofurnar þurfa því að vera fyrr á ferðinni með dagskrá næsta árs.

Íslendingar eru byrjarðir að bóka skíða- og sólarlandaferðir fyrir næsta vetur. Myndir: Whistler og Ferðamálaráð Kanaríeyja

„Það er nú þegar mikil eftirspurn eftir skíðaferðum næsta veturs og þetta birtist okkur miklu fyrr en fyrir ári síðan,“ segir Jóhann Guðjónsson, hjá GB-ferðum, sem býður meðal annars upp á skíðaferðir til Whistler í Kanada, Colorado og Austurríkis. Jóhann telur að það séu aðallega þrjár ástæður fyrir þessari breyttu hegðun. „Það er mikil stemning í þjóðfélaginu fyrir skíðaferðum vegna þess að þessi vetur, sem er að líða, var mjög góður hvað varðar snjóalög. Eins hefur kaupmáttur aukist mikið milli ára hjá okkur Íslendingum og fólk er að læra að það borgar sig að bóka skíðaferðina fyrr en áður þar sem margar dagsetningar seldust upp snemma nú í vetur.“ Til að mæta þessum mikla áhuga á skíðaferðum þá ætla GB-ferðir að bjóða upp á fleiri ferðir og áfangastaði næsta vetur.

Það er ekki aðeins skíðaáhugafólkið sem er farið að leggja drög að ferðalögum næsta vetrar því pantanir á sólarferðum eru líka farnar að berast. „Sala á ferðum til Tenerife og Kanarí fram í mars á næsta ári er nú þegar hafin en við höfum ekki áður verið svona snemma á ferðinni. En það borgar sig því fólk er byrjað að bóka jólaferðirnar enda eru Íslendingar í auknum mæli farnir að tryggja sér góðar gistingar vitandi að þær fara mjög fljótt,“ segir Þórunn Reynisdóttir hjá Ferðaskrifstofu Íslands sem rekur m.a. Úrval-Útsýn. Þórunn bætir því við að almennt fari sá hópur stækkandi sem panti ferðir með góðum fyrirvara og til marks um það eru þær bókanir sem nú þegar eru komnar á ferðum næsta árs.

Eins og áður hefur komið fram þá hefur ferðagleði Íslendinga aukist hratt að undanförnu og til að mynda fóru fleiri út í fyrra en nokkur dæmi eru um. Nú um páskana má svo gera ráð fyrir að mikill fjöldi Íslendinga sé staddur á erlendri grundu því aðra páskana í röð þá eru bílastæðin við Leifsstöð full.