Segja ráðherra skaða ferðaþjónustuna

Forsvarsfólk í ferðaþjóustunni telur að ráðherra ferðamála hafi breikkað bilið milli almennings og atvinnugreinarinnar með orðum sínum.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála. Mynd: Stjórnarráðið og Iceland.is

„Þetta er í boði skattgreiðenda,” sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, þegar hún útskýrði í fréttum Stöðvar 2, á fimmtudag, hvaðan þeir 2,8 milljarðar króna koma sem setja á í framkvæmdir við ferðamannastaði til ársins 2020. Þessi fullyrðing ráðherrans hefur fallið í mjög grýttan jarðveg hjá því forsvarsfólki í ferðaþjónustunni sem Túristi hefur rætt við síðustu daga. Megin ástæðan fyrir óánægjunni er sú að í skýringu sinni horfir ráðherra framhjá því að gistináttaskatturinn var upphaflega settur á til að fjármagna framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Sú skattheimta mun skila ríkissjóði 1,4 milljarði í ár samkvæmt fjárlögum og ef ferðamannastraumurinn verður álíka næstu tvö ár verða tekjur ríkisins af gjaldinu því um 4,2 milljarðar næstu þrjú ár.

Innan ferðaþjónustunnar telja sumir að fullyrðing ráðherra, um að framkvæmdastyrkurinn komi úr vasa skattgreiðenda, hafi skaðað atvinnugreinina. „Ráðherrann fær þarna tækifæri til að segja hvernig þessi uppbygging er fjármögnuð og kýs að skilja það eftir í hugum fólks að þetta sé tekið af skattgreiðslum almennings. Þegar staðreyndin er sú að bara gistináttagjaldið gerir meira en að greiða fyrir þetta,” segir einn viðmælenda Túrista.

Því er einnig velt upp hvort ráðherrann sé með orðavali sínu að stilla sér upp á móti atvinnugreininni. „Það er hagsmunamál bæði þjóðarinnar og greinarinnar að um ferðaþjónustuna ríki sátt og friður. Ferðamálaráðherra er að skapa gjá á milli þjóðarinnar og ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar með rangfærslum sínum. Það er ábyrðarhlutur að vega svona að greininni. Ég veit ekki í hvaða liði hún spilar, hún er a.m.k. ekki með okkur í liði.”

Aðrir vilja halda þeim möguleika opnum að fullyrðing ráðherra  skrifist á fákunnáttu eða fljótfærni. „Í besta falli er umsögn ráðherrans misskilningur eða vanþekking á því hvernig gistináttagjaldið virkar. Í versta falli eru orð hennar eingöngu fallin til að reka fleyg á milli ferðþjónustunnar og fólksins í landinu.”