Stefna á að auka Íslandsflugið síðar

Þýska lággjaldaflugfélagið Eurowings hefur dregið töluvert úr flugi sínum til Keflavíkurflugvallar í sumar. Megin ástæðan er ekki minnkandi aðdráttarafl Íslands.

Mynd: Eurowings

Síðustu sumur hefur þotur Eurowings flogið til Íslands frá nokkrum þýskum borgum en í sumar verða áfangastaðirnir færri og tíðnin minni líkt og Túristi sagði frá í síðustu viku. Við þennan samdrátt bætist við að Airberlin, sem var stórtækt í flugi milli Íslands og Þýskalands, fór í þrot í vetrarbyrjun. Þar með stefnir í að framboð á flugi milli Íslands og Þýskalands verði minna í sumar en Þjóðverjar eru næstfjölmennastir í hópi ferðafólks hér á landi yfir sumarmánuðina þrjá.

Túristi hefur gert ítrekaðar tilraunir til að fá skýringar á samdrætti Eurowings á Keflavíkurflugvelli en ekki fengið neinar upplýsingar. Fyrr en nú og í svari félagsins segir að megin ástæða þess að Eurowings skeri niður Íslandsflugið sé fall Airberlin. „Núna er markaðurinn mjög dýnamískur og fjöldi flugfélaga er að gera breytingar á áætlun sinni og þar á meðal Eurowings. Helsta ástæðan fyrir þessu er gjaldþrot Airberlin sem er það stærsta í sögu evrópskrar flugsögu. Það skildi eftir sig stórt skarð í framboði á flugsætum, allt að 60 þúsund sæti á dag, og það gat eru hin ýmsu flugfélög nú óðum að fylla,” segir í svarinu. Þar kemur jafnframt fram að félagið muni taka upp þráðinn í flugi til Íslands síðar. Það hefur hins vegar ekki verið ákveðið að hve miklu leyti en líkt og Túristi greindi frá þá ætlar félagið ekki að fljúga hingað frá Stuttgart og Berlín í sumar og flugið til Dusseldorf hefur líka verið skorið niður. Hvað sem því líður er ljóst að stjórnendur Eurowings setja það ekki í forgang að fylla skarð Airberlin á Keflavíkurflugvelli.

Hins vegar mun Eurowings halda úti áætlunarflugi hingað frá Hamborg og Köln en samtals verður flogið frá Keflavíkurflugvelli til 9 þýskra borga í sumar.