Svona mikinn skatt borga þýsku hjónin á Íslandi

Ein af hverjum sex krónum sem hefðbundinn sumarferðamaður eyðir hér á landi fer beint í ríkissjóð.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF. Myndir: Island.is

 

Erlendir ferðamenn eru líka skattgreiðendur,” sagði ráðherra ferðamála í svari til Túrista þar sem hún útskýrði nánar umdeild orð sín um að fjármagn í framkvæmdir við ferðamannastaði kæmi úr vasa skattgreiðenda. Í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag fer Bjarnheiður Hallsdóttir, nýkjörinn formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, yfir það hversu mikið hefðbundinn ferðamaður borgar í raun í skatt hér á landi.

Bjarnheiður tekur dæmi af þýskum hjónum sem fara hringinn um landið í bílaleigubíl á níu dögum. Þau kaupa sér gistingu og borða á veitingastöðum í hádeginu og á kvöldin og greiða fyrir aðgang að söfnum, borga í bílastæði og kaupa sér bækur. Í heildina greiða þau 123.673 krónur í skatta og gjöld á ferðalagi sínu um landið eða nærri 14 þúsund krónur á dag.

„Fyrirhugað stórátak í uppbyggingu innviða sem ferðamála- og umhverfisráðherrar kynntu fyrir skömmu er því vissulega í boði skattgreiðenda. En við skulum hafa það hugfast að gestir okkar, ferðamennirnir, eru líka stórir skattgreiðendur á Íslandi. Þeir leggja miklu meira inn heldur en þeir taka út,” segir Bjarnheiður í grein sinn í Fréttablaðinu.