Um þriðjungi færri með leyfi fyrir heimagistingu

Listinn yfir þá aðila sem bjóða upp á skammtímaleigu á íbúðahúsnæði í takt við gildandi reglur hefur styst umtalsvert frá áramótum.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com
Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Í byrjun síðasta árs gengu í gildi nýjar reglur um skammtímaleigu á húsnæði og samkvæmt þeim verða allir þeir sem stunda þess háttar starfsemi að vera með sérstakt leyfi. Um síðustu áramót voru í gildi tæplega 1100 leyfi en í dag er fjöldinn kominn niður í 726. Þetta má sjá á vefsíðunni Heimagisting.is en þar er að finna lista yfir alla skráða heimagistingu í landinu og hefur hann styst þónokkuð frá því í byrjun árs.

Það er Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sem veitir leyfin og gilda þau innan almanaksársins en ekki til 12 mánaða eins og einhverjir gætu haldið. Og sá munur er mögulega ein af ástæðum þess að færri eru nú með leyfi en áður en önnur skýring gæti verið sú að þeim fari fækkandi sem sjá hag í því að leigja út húsnæði til skemmri tíma.

Hvort framboð á heimagistingu hafi dregist saman í takt við fækkandi leyfi er þó ekki hægt að sannreyna eins og staðan er núna. Til að mynda vilja forsvarsmenn bandaríska fyrirtækisins Airbnb, sem er umsvifamest í útleigu á íbúðahúsnæði til ferðamanna hér á landi, ekki viljað veita upplýsingar um reksturinn sinn á Íslandi. En samkvæmt þeim tölum sem finna mátti á Mælaborði ferðþjónustunnar þá hafði Airbnb um 4.500 íslenska gistikosti á sinum snærum í fyrra.

Niðurstöður landamærakönnunar Ferðamálastofu sýna að sjöundi hver ferðamaður hér á landi bókar heimagistingu. Hlutfallið er þó mjög mismunandi eftir þjóðum, til að mynda fer fimmti hver ferðamaður frá N-Ameríku í íbúðagistingu á meðan aðeins einn af hverjum tíu túristum frá Norðurlöndunum bókar þess háttar. Þessar landamærakannanir eru nýjar af nálinni og því ekki hægt að segja til um hvernig hlutdeild heimagistingar á gistimarkaðnum hefur þróast.