Virði Norwegian lækkar eftir reddingu næturinnar

Þeir fjárfestar sem tóku þátt í hlutafjáraukningunni í Norwegian í nótt fengu 10% afslátt miðað við gengi félagsins í gærdag.

bjornkjos
Bjørn Kjos, forstjóri, Norwegian. Mynd: Norwegian

Forstjóri og stofnandi Norwegian, Bjørn Kjos, segir árið 2017 hafa verið „skítaár“ og reyndar hefur árið í ár ekki byrjað vel. Til að mynda þurfti að lækka verðmæti hlutar flugfélagsins í Norwegian bankanum umtalsvert og afkomuspáin fyrir 2018 hefur verið lækkuð. Það var því óumflýjanlegt að styrkja þurfti þetta stærsta flugfélag Norðurlanda og seinnipartinn í gær hófst útboð á nýju hlutafé upp á 1,3 milljarða norskra króna, það jafngildir um 17 milljörðum íslenskum.

Markmiðið var að ljúka sölunni fyrir opnun markaða í morgun og það gekk eftir en nýja hlutaféð var hins vegar selt á 10% lægra verði en gengi hlutabréfa Norwegian var í gær. Þar með er gengið í Norwegian orðið það lægsta sem það hefur verið í nærri 6 ár samkvæmt frétt Dagens Næringsliv.

Líkt og Túristi greindi frá í gær þá er forstjóri Ryanair og sérfræðingar á skandinavíska flugmarkaðnum ekki bjartsýnir á áframhaldið hjá Norwegian en félagið flýgur til Íslands frá Noregi, Svíþjóð, Bretlandi og Spáni.

Hér er viðtal sem Túristi tók við Bjørn Kjos, forstjóra Norwegian, haustið 2013.