Vonast til að Bandaríkin verði vinsæl á ný

Erlendu ferðafólki hefur farið fækkandi í Bandaríkjunum síðastliðið ár og er samdrátturinn oftar en ekki rakinn til húsbóndans í Hvíta húsinu.

newyork loft Troy Jarrell
Séð yfir Manhattan í New York. Mynd: Troy Jarrell / Unsplash

Þó Donald J. Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi verið stórtækur í hótelrekstri og komi frá New York þá hafa forsvarsmenn ferðamála í heimaborg forsetans gagnrýnt stefnu hans og yfirlýsingar í garð útlendinga og innflytjenda. Vilja þeir meina að forsetinn fæli fólk frá með gjörðum sínum og það hefur reyndar komið á daginn að erlendu ferðafólki í Bandaríkjunum hefur farið fækkandi síðan Trump tók við lyklavöldum í Hvíta húsinu. Þannig heimsóttu 100 þúsund færri útlendingar New York í fyrra en árið á undan.

Þannig hefur áhugi Þjóðverjar á að ferðast til Bandaríkjanna minnkað verulega því eftirspurn eftir Bandaríkjareisum mun hafa dregist saman um nærri fimmtung í Þýskalandi samkvæmt niðurstöðum rannsóknarfyrirtækisins GfK sem kynntar voru á ITB ferðakaupstefnunni í Berlín fyrr í þessum mánuði. Af því tilefni var haft eftir talsmanni ferðamálaráðs New York að hann væri vongóður um að þessari þróun verði snúið við í ár. Ekki af því að Trump eigi eftir að vera varkárari í yfirlýsingum sínum heldur vegna þess að fólk er farið að venjast þessu og láta það hafa minni áhrif á sig.