Áfram milljarða hagnaður af starfsemi Isavia

Farþegum á Keflavíkurflugvelli fjölgaði um ríflega fjórðung í fyrra en hagnaðurinn var þó minni en árið á undan.

Mynd: Isavia

Tekjur af starfsemi Isavia hækkuðu um 15% í fyrra og náum þær 38 milljörðum. Í heildina skilaði Isavia, sem er að fullu í eigu ríkisins, 3,9 milljarða hagnaði. Það er þremur milljörðum minna en í fyrra en í tilkynningu segir að fjármögnun í erlendum gjaldmiðlum skýri að mestu þennan mun milli ára.

Á ársfundi Isavia sem fram fór í gær og kom meðal annars fram að stjórn fyrirtækisins hefði samþykkt að hefja framkvæmdir við næstu hluta framtíðarskipulags Keflavíkurflugvallar og munu 30 milljarðar fara í þær næstu þrjú ár. Á sama tíma er fjárþörfin fyrir viðhald og uppbyggingu innanlandsflugvallanna mikil og í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgönguráðherra, kom fram að setja þyrfti 7-8 milljarða í það verk. „Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að samkvæmt fjármálaáætlun verður meira fjármagni veitt til viðhalds flugvalla en hefur verið gert á síðustu árum,“ sagði samgönguráðherra.

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, segir síðasta ár hafa verið viðburðaríkt og tengja mætti mikinn vöxt fyrirtækisins við aukningu í millilandaflugi. „Ísland er nú orðinn heilsársáfangastaður og erum við sérstaklega stolt af þátttöku Keflavíkurflugvallar í því verkefni en sá árangur er afrakstur góðrar samvinnu flugvallarins, verktaka á flugvellinum og flugfélaganna auk ferðaþjónustunnar á Íslandi. Við höfum fjölgað starfsfólki til að takast á við aukna umferð um flugvöllinn og er það okkar góða fólki að þakka hversu vel hefur gengið. Það er líka ánægjulegt að sjá hversu vel hefur tekist að verja arðsemi af rekstrinum við mjög svo þröngar aðstæður á Keflavíkurflugvelli,“ segir Björn Óli.