Allir pólsku „ferðamennirnir“

Eitt dæmi í viðbót um skekkjurnar í talningunni sem verið hefur helsti mælikvarðinn á ganginn í ferðaþjónustunni.

erlendir ferdamenn
Mynd: Island.is

Á næstu dögum mun Ferðamálastofa birta niðurstöður talningar á erlendum flugfarþegum á Keflavíkurflugvelli í mars. Þessar tölur voru áður kynntar sem talning á erlendum ferðamönnum en eftir að sýnt var fram á skekkjurnar hefur heiti hennar breyst. Þrátt fyrir það þá eru niðurstöðurnar ennþá notaðar sem helsti mælikvarðinn á fjölda ferðamanna á Íslandi og Túristi notast reglulega við þær. En hér er eitt lítið dæmi í viðbót sem sýnir hversu mikil skekkjan getur verið þar sem útlendingar sem hér búa eru taldir sem ferðafólk.

Í febrúar flugu 3 þúsund fleiri Pólverjar frá Íslandi en á sama tíma í fyrra og stóðu pólsku farþegarnir undir um fjórðungi af allri þeirri fjölgun sem varð í fjölda erlendra flugfarþega á Keflavíkurflugvelli. Í heildina voru Pólverjarnir rétt um 6 þúsund talsins eða álíka fjölmennir og Þjóðverjar og Frakkar. En eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan þá voru ekki margir pólskir hótelgestir á íslenskum hótelum í febrúar en tölur fyrir aðra gistikosti liggja ekki fyrir.