Bestu og verstu bílaleigurnar

Það eru ófáir sem vilja eða þurfa hafa bíl til umráða í utanlandsferðinni. Fyrir þann hóp gæti reynt gott að hafa til hliðsjónar niðurstöður breskrar athugunar á hvaða bílaleigufyrirtæki standa sig best.

vegur gr Aleksandr Kozlovskii
Mynd: Aleksandr Kozlovskii / Unsplash

Stór hluti þeirra kvartana sem berast Evrópsku neytendaaðstoðinni snýr að bílaleigum og hefur Evrópusambandið lagt hart að stjórnendum stærstu bílaleiga í heimi að bæta ráð sitt. Sérstaklega þykir það einkennilegt að alþjóðleg fyrirtæki láti ferðafólk undirrita samninga á tungumálum sem það ekki skilur í stað þess að hafa alla pappíra á ensku. Eins hefur mat starfsmanna bílaleiganna á tjónum of oft reynst vafasamt og svo mætti áfram telja.

Til að draga úr líkunum á því að breskir ferðamenn eigi í viðskiptum við bílaleigur sem ekki eru til fyrirmyndar þá birta bresku neytendasamtökin Which? árlega lista yfir þau fyrirtæki sem bera af og þau sem varla teljast boðleg. Í ár er það bílaleigan Enterprise sem hlýtur nafnbótina besta bílaleigufyrirtæki í heimi og segir í niðurstöðum dómnefndar að verðskrá Enterprise sé skýr, afhending ökutækja sé snuðrulaus, bílarnir góðir og starfsmennirnir brosandi. Þess má geta að Kynnisferðir reka bílaleigu Enterprise á Íslandi.

Samkvæmt Which? er það Avis sem er umsvifamesta bílaleigan enda bjóði fyrirtækið samkeppnishæf verð og góða bíla. Breskir neytendur eru hins vegar varaðir við óskýrum reikningum sem berist frá Avis eftir að leigutíma lýkur. Thrifty er hins vegar sú leiga sem Which? mælir með fyrir þá sem vilja fá sem bílinn sem ódýrastan.

Versta bílaleigufyrirtækið er aftur á móti Interrent að mati Which? og tekið er sérstaklega fram að meira að segja Goldcar standi sig betur og mun þá mikið vera sagt. En Goldcar þekkja vafalítið margir sem hafa leigt bíl á Spáni síðastliðin ár. Og þar sem margir Íslendingar ferðast til Kanarí og Tenerife þessi misserin þá má nefna að bílaleigan Autoreisen er nefnd sérstaklega fyrir framúrskarandi þjónustu á Kanaríeyjum.

Á netinu finnst urmull af heimasíðum sem sérhæfa sig í að bera saman tilboð á bílaleigubílum. Í könnun Which? er það Zest Car Rental sem þykir standa sig best í að finna bestu tilboðin og útskýra muninn á því sem bílaleigurnar hafa upp á að bjóða. Þar á eftir kemur Rentalcars og í þriðja sæti er Auto Europe.