Mikið framboð á ferðum í kringum rauðu dagana í vor

Það eru fjórar langar helgar framundan og úrvalið ódýrum farmiðum út í heim er umtalsvert og eins hafa ferðaskrifstofurnar ýmislegt á boðstólum.

London Piccadilly Julian LoveLondon and Partners
Af öllum þeim tugum áfangastaða sem hægt er að fljúga til næstu vikur þá er farið almennt ódýrast til London. Mynd: Visit London

Það eru líklega þúsundir Íslendinga á leið heim úr páskaferðum í dag og þá verða aftur laus bílastæði við Keflavíkuflugvöll. Og þó stæðin fyllist ólíklega á næstunni þá má gera ráð fyrir að þau verði þétt skipuð í kringum þær fjóru löngu helgar sem framundan eru í apríl og maí. Þessa stöku frídaga er nefnilega vinsælt að nýta í stuttar borgarferðir út í heim og það sést meðal annars á því að ferðaskrifstofurnar eru með úrval af pakkaferðum í kringum þessa daga.

Við það bætist svo allt áætlunarflugið til Evrópu og N-Ameríku en framboðið hefur aldrei verið meira og samkvæmt athugun Túrista er hægt að finna töluvert af hagstæðum fargjöldum í kringum sumardaginn fyrsta (19. apríl), 1. maí, uppstigningardag (10. maí) og annan í hvítasunnu (21. maí). Hið mikla framboð á flugi héðan til London er sennilega helsta ástæða þess að þangað er alla jafna ódýrasta að fljúga, til dæmis fæst farmiði með Wizz Air 9. til 13. maí á um 5.800 krónur, báðar leiðir. Til borgarinnar má líka komast fyrir um 10 þúsund í kringum hina þrjá dagana. Til Barcelona má finna flugmiða á um 20 þúsund krónur og til New York er hægt að fljúga fyrir um 35 þúsund kr. svo nokkur dæmi séu nefnd.

En sem fyrr segir þá er úrvalið mjög mikið og til að einfalda sér leitina þá mælir Túristi með leitarvélum eins og Momondo og Kiwi. Báðar þessar leitarvélar birta dagatal í kringum þær dagsetningar sem eru valdar og því einfalt að sjá hvort hagstæðara er að fljúga út deginum fyrr eða síðar. Hér er svo listi yfir alla þá áfangastaði sem flogið er til næstu vikur en með því að slá inn nafn lands eða borgar þá má hvaða flugfélög fljúga hvert. Til að finna gistingu þá er leitarvél HotelsCombined hentug til að bera saman tilboð á milli hótelbókunarfyrirtækja.

Ferðaskrifstofurnar bjóða líka upp á borgarferðir í kringum frídagana í apríl og maí. Hjá Úrval-Útsýn eru nú til sölu ferðir til Tórínó, Rómar og Lissabon og Vita er einnig með ferð til portúgölsku höfuðborgarinnar.