Rúmlega 1,5 milljón farþega flugu frá Bretlandi til Íslands

Aldrei hafa jafn margir flogið hingað frá Bretlandi en flestir leggja í Íslandsferðina á Gatwick flugvelli í London.

Frá Gatwick flugvelli. Mynd: Gatwick Airport

Yfir vetrarmánuðina eru Bretar fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi enda er framboð á flugi þaðan til Íslands mikið. Þannig er hægt að komast reglulega til Íslands frá 13 breskum flugvöllum og frá nokkrum í viðbót eru í boði stakar ferðir á vegum ferðaskrifstofa. Í fyrra heimsóttu 323 þúsund Bretar Ísland en hins vegar flaug rúmlega 1,5 milljón farþega milli Bretlands og Íslands á síðasta ár samkvæmt tölum frá bresku samgöngustofunni. Þessar rúmu 1,2 milljónir sem upp á vantar hafa verið Íslendingar, ferðamenn frá öðrum þjóðum og svo auðvitað allir þeir sem fljúga milli Bretlands og N-Ameríku en millilenda hér á landi á leiðinni. Í heildina flugu fimmtungi fleiri til Íslands frá Bretlandi en árið á undan.

Um langt árabil var Heathrow flugvöllur við London sá flugvöllur sem flestir nýttu til að komast hingað en síðustu ár hefur Gatwick flugvöllur, suður af höfuðborginni, verið vinsælastur. Þar á eftir kemur Heathrow og svo Manchester.

Eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan þá fækkaði farþegunum hins vegar töluvert frá nokkrum flughöfnum. Skýringin á samdrættinum á Belfast International er sú að easyJet hætti að fljúga þaðan yfir sumarmánuðina og fækkunin í Bristol skrifast á að WOW hætti að fljúga til borgarinnar. Eins nýttu sér færri Íslandsflug frá Birmingham og Aberdeen og það er væntanlega ástæðan þess að Icelandair hætti að fljúga til þeirrar fyrrnefndu og að bæði Air Iceland Connect leggur niður flug til bæði Aberdeen og Belfast City frá og með vorinu.