Efla rannsóknir innan Ferðamálastofu

Staða forstöðumanns rannsókna- og tölfræðisviðs Ferðamálastofu er nú laus til umsóknar.

Ferðamenn við Námaskarð. Mynd: Island.is

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að stutt verði myndarlega við rannsóknir í ferðaþjónustu og nú leitar Ferðamálastofa eftir forstöðumanni rannsókna- og tölfræðisviðs stofnunarinnar. Um er að ræða nýja stöðu en ætlunin er auka áherslu á söfnun og miðlun talnalegra upplýsinga innan stofnunarinnar. Og þá er ekki aðeins litið til rannsókna á vegum Ferðamálastofu heldur líka atvinnugreinarinnar sjálfrar og eins hjá opinberum stofnunum, t.d. Hagstofunni.

Að sögn Skarphéðins Berg Steinarssonar, ferðamálastjóra, verður starfsmönnum á þessu sviði fjölgað frá því sem nú er og Mælaborð ferðaþjónustunnar, sem verið hefur innan Stjórnstöðvar ferðamála, færist yfir til Ferðamálastofu á næstu dögum.

Í starfsauglýsingu á heimasíðu Ferðamálastofu segir að leitað sé eftir einstaklingi sem hafi háskólamenntun og meistaragráðu. Viðkomandi þarf að hafa góða þekkingu og færni í meðferð gagna og tölfræðilegri greiningu og eins er stjórnunarreynsla nauðsynleg. Þekking á sviði ferðaþjónustu er æskileg. Umsóknarfrestur rennur út 9. apríl.