Eigandi British Airways skoðar yfirtöku á Norwegian

Hlutabréf í Norwegian hafa hækkað um 44% síðustu klukkutíma eftir að mikill áhugi á að taka félagið yfir spurðist út.

Mynd: Norwegian

Viðskipti með hlutabréf í Norwegian voru stöðvuð í norsku kauphöllinni í morgun eftir að fréttaveita Bloomberg News sagði frá því að IAG, móðurfélag British Airways og fleiri flugfélaga, ætti orðið nærri 5% hlut í norska lággjaldaflugfélaginu og væri að skoða að gera tilboð í allt félagið. Í kjölfarið gaf IAG út tilkynningu þar fram kemur að Norwegian sé álitlegur fjárfestingakostur en ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um að bjóða í allt hlutafé norska lággjaldaflugfélagsins.

Þetta mál hefur fengið mikla athygli í skandinavísku viðkskiptapressunni í dag og í frétt norska blaðsins Dagens Næringsliv kemur fram að hugsanlegt tilboð IAG í Norwegian gæti hljómað upp á um 23 milljarða norskra króna. Það er aðeins nokkur hundruð milljónum króna meira en Norwegian skuldar í dag. IAG væri því fyrst og fremst að taka yfir skuldir og þyrfti því ekki að leggja mikið út fyrir því að eignast Norwegian. En rekstur félagsins hefur gengið illa síðustu misseri enda hefur það verið í mikilli útrás og þá aðallega tengdri flugi yfir Atlantshafið frá Skandinavíu, Bretlandi og Frakklandi. Haft er eftir Bjørn Kjos, forstjóra og stofnanda Norwegian, að boða IAG hljómi hlægilega og því verði aldrei tekið. Hann viðurkennir að hafi ekki vitað að IAG væri að kaupa upp hluti í flugfélaginu.

Þess má geta að IAG á ekki aðeins British Airways heldur líka spænsku flugfélögin Iberia, Iberia Express og Vueling. Auk hins írska Aer Lingus.