Eitt mikilvægasta verkefni ferðaþjónustufyrirtækja

Staða ferðaþjónustunnar í stafrænum heimi verður til umræðu á ráðstefnu í næstu viku. Ferðamálastjóri segir mikilvægt að auka umræðu um þessi mál.

Mynd: Guus Baggermans / Unsplash

Ferðamálastofa í samstarfi við Íslenska ferðaklasann býður til morgunfundar á miðvikudaginn. Með þessu framtaki er ætlunin að vekja umræðu og gera íslenska ferðaþjónustu meðvitaða um þær öru tæknibreytingar sem eru að verða í heimi ferðaþjónustunnar. „Að innleiða stafrænar lausnir er eitt það mikilvægasta fyrir fyrirtækin í greininni því þannig geta þau lækkað kostnað og aukið skilvirkni,” segir Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri.

Meðal fyrirlesara á fundinum er Bandaríkjamaðurinn Doug Lansky. Hann er vinsæll höfundur ferðabóka, ásamt því að vera eftirsóttur alþjóðlegur fyrirlesari og ráðgjafi í ferðamálum. Doug hefur ferðast um heiminn mörg undanfarin ár og greint frá upplifunum sínum með gamansömum hætti í blaða- og tímaritsgreinum undir nafninu Vagabond. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, setur málþingið.

Fundurinn verður haldinn í Salnum í Kópavogi miðvikudaginn 2. maí kl. 8:30-11:30. Þátttaka er án endurgjalds en nauðsynlegt er að skrá sig en nú þegar er fjöldi sæta bókaður. Fundurinn verður einnig sendur út beint á Netinu.