Fleiri íslenskir túristar til Berlínar

Áfram fjölgar þeim Íslendingum sem heimsækja höfuðborg Þýskalands.

berlin sumar
Það styttist í að veðrið verði svona gott í Berlín. Mynd: Visit Berlin

Það eru sífellt fleiri hér á landi sem nýta sér hinar góðu flugsamgöngur sem í boði eru til Berlínar. Íslenskum ferðamönnum þar í bæ fer nefnilega ört fjölgandi og í fyrra keyptu Íslendingar nærri 44 þúsund gistinætur í borginni. Það er aukning um 11, 5 prósent samkvæmt uppgjöri ferðamálaráðs Berlínar.

Að jafnaði gistu íslensku ferðamennirnir í 3,2 nætur í borginni en að jafnaði gistu Evrópumenn í borginni í 2,7 nætur og dvalartími Íslendinganna var því langt yfir meðaltalinu. Og reyndar eru það aðeins Kýpverjar sem dvelja þar lengur en Íslendingar. Áður fyrr var hægt að skrifa þessa löngu dvöl á lítið framboð á flugi héðan til Berlínar yfir vetrarmánuðina en á því hefur orðið mikil breyting. WOW air flýgur nú til Berlínar sjö sinnum í viku og Icelandair hóf að fljúga þangað í lok síðasta árs, í kjölfar gjaldþrots Airberlin. Yfir sumarið bætist svo við flug Eurowings frá Tegel. En þangað fljúga líka þotur Icelandair á meðan WOW air heldur til á Schönefeld í austurhluta Berlínar.

Frá og með haustinu 2020 er hins vegar stefnt að því allir þeir sem fljúga til borgarinnar lendi á sama stað. Þá er nefnilega ætlunin að taka í notkun Brandenburg flugstöðina sem stendur við flugbrautirnar hjá Schönefeld. Upphaflega áttu fyrstu farþegarnir að fara þar um í október 2011 en vegna hönnunargalla og annarra vandræða þá hefur ekki tekist að reka smiðshöggið á bygginguna.