Flugbjór í loftið

Icelandair tók nýverið í notkun splunkunýja þotu og af því tilefni var bruggaður sérstakur bjór sem farþegar félagsins geta nælt sér í á meðan birgðir endast.

737 IPA bjórinn sem seldur verður í þotum Icelandair nú í vor. Mynd: Icelandair

Þrátt fyrir að neysla á bjór sé löngu hætt að nær einskorðast við lagerbjóra þá er þess háttar öl ennþá alls ráðandi á vínseðlum flugfélaganna. Hjá Icelandair hefur nú verið bætt úr þessu með nýjum IPA-bjór sem ber heitið 737 og er þar vísað til þess að þotan sem félagið tók í notkun í síðustu viku er af tegundinni Boeing MAX 737. Og það sem meira er þá er styrkleiki ölsins heil 7,37%. Það er því vissara að ganga hægt um gleðinnar dyr.

Hinn nýi flugvélabjór er bruggaður úr Pacific Northwest humlum sem ræktaðir eru skammt frá bandarísku borginni Renton en þar er nýja MAX þotan einmitt framleidd. Bjórinn er hins vegar bruggaður af írska brugghúsinu Boyne en höfuðborg Írlands bætist við leiðakerfi Icelandair nú í vor.

Þeir sem fljúga með Icelandair á næstunni geta keypt bjórinn um borð en hann er líka í boði í Betri stofu Icelandair í Leifsstöð. Flugfélagið býður hins vegar upp á SKY sódavatnið sem var líka blandað sérstaklega í tilefni af nýjustu viðbótinni við flugflota Icelandair.