Fyrstu ferðirnar voru til New York og Berlínar

Icelandair tók í gær formlega í notkun nýja Boeing 737 MAX farþegaþotu.

Jökulsárlón tekur á loft. Mynd: Boeing

Fyrir sex árum síðan gengu stjórnendur Icelandair frá pöntun á sextán Boeing 737 MAX farþegaþotum. Í gær var svo komið að vígslu þeirrar fyrstu og var það gert með stuttu hringflugi yfir Ísland. „Þetta eru ánægjuleg tímamót, upphafið að endurnýjun flugflota Icelandair sem er stórt og spennandi verkefni. Þessi flugvélagerð hentar leiðakerfi okkar einstaklega vel, gefur okkur tækifæri til að byggja upp nýja markaði og styrkja þá sem fyrir eru“, segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, í tilkynningu.

Nýja þotan fékk heitið Jökulsárlón og samkvæmt vefsíðunni Flightradar24 þá eru hún þegar farin að sinna áætlunarflugi með farþega Icelandair. Fyrsta ferðin var á föstudag, daginn fyrir hina formlegu vígslu, og þá flaug þotan til Newark flugvallar í New York. Þangað fór hún svo aftur í gærkveldi eftir hringflugið yfir Ísland og í morgun var svo ferðinni heitið til Tegel flugvallar í vesturhluta Berlínar. Strax í kjölfarið var haldið til Newark í þriðja sinn á jafn mörgum dögum.

Til hvaða borgar í Evrópu þotan flýgur í fyrramálið á eftir að koma í ljós en það er næsta víst að þangað hefur hún ekki komi áður því Icelandair býður ekki upp á áætlunarferðir til höfuðborgar Þýskalands á mánudögum.