Heimsóttum frændþjóðirnar oftar

Danmörk er langvinsælasti áfangastaðurinn í Skandinavíu hjá íslenskum ferðamönnum en þeim fór líka fjölgandi í Svíþjóð og Noregi.

Frá Dronning Louise Bro við Norðurbrú í Kaupmannahöfn. Mynd: Martin Heiberg

Þrjár af hverjum fjórum gistinóttum sem Íslendingar bóka í Danmörku eru í Kaupmannahöfn en vægi höfuðborga Svíþjóðar og Noregs er ekki nándar nærri eins hátt. Aðeins um helmingur þeirra Íslendinga sem leggja leið sína til Svíþjóðar gista í sænska höfuðstaðnum og tæpur fjórðungur þeirra sem halda til Noregs leggjast til hvílu í Ósló. Í þessum þremur löndum fjölgaði þó íslensku ferðafólki umtalsvert í fyrra en um tvöfalt fleiri fara til Danmerkur en til Svíþjóðar og Noregs. Er þá horft til gistinátta Íslendinga í löndunum þremur en þær upplýsingar eru sóttar til skandinavísku hagstofanna.

Á þessum tölum sést líka greinilega að mikill meirihluti Íslendinga kýs að gista á hótelum frekar en í annars konar gistingu. Hlutfallið er í kringum 85 til 89% sem er aðeins hærra en almennt gerist. Þó ber að hafa í huga að gisting á vegum Airbnb er ekki inní þessum tölum.