Hlutabréf Icelandair og SAS hækka líka

Frá því að það spurðist út að móðurfélag British Airways væri að skoða yfirtöku á Norwegian hefur hlutabréfverð Icelandair og SAS hækkað þónokkuð.

icelandair 767 757
Mynd: Icelandair

Forsvarsfólk norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian hafði ekki hugmynd um að IAG, móðurfélag British Airways, ætti orðið nærri 5% hlut í félaginu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Norwegian sem send var út í morgun í kjölfar frétta um að stjórnendur IAG væru ekki aðeins að kaupa hluti í norska lággjaldaflugfélaginu heldur líka að íhuga að bjóða í fyrirtækið eins og það leggur sig. Kaupverðið er þó sagt rétt duga fyrir skuldunum en Norwegian er mjög skuldsett félag og þurfti t.d að sækja auka hlutafé í síðasta mánuði. Verð hlutabréfa í Norwegian rauk upp rúm 40% í morgun og voru viðskipti með bréfin stöðvuð í stutta stund í norsku kauphöllinni.

Þessi óvænti áhugi IAG á stærsta flugfélagi Norðurlanda hefur líka haft áhrif á virði annarra norrænna flugfélaga. Þannig hefur hlutabréfverð í SAS hækkað um nærri 9 af hundraði í morgun og viðskipti með bréf Icelandair hafa líka verið umtalsverð eða um 550 milljónir og hefur félagið hækkað um 3,8%.