Hrina jómfrúarferða til Bandaríkjanna er hafin

Næstu vikur bætist fjöldi bandarískra áfangastaða við leiðakerfi íslensku flugfélaganna. Fyrsta ferðin til bílaborgarinnar Detroit var farin í gær.

Detroit í Bandaríkjunum. Mynd: WOW air

Forsvarsmenn Icelandair og WOW air eru ekki aðeins uppteknir við að taka í notkun nýjar þotur þessa dagana. Þeir munu nefnilega líka klippa á ófáa borða í erlendum flugstöðvum á næstunni og þá sérstaklega vestanhafs. Ástæðan er sú að hvorki fleiri né færri en sex bandarískar borgir bætast við leiðakerfi flugfélaganna nú í vor. Í gær var komið að þeirri fyrstu þegar ný þota WOW air flaug til Detroit og brátt eru jómfrúarferðir flugfélagsins til St. Louis, Cincinnati, Cleveland og Dallas á dagskrá. Icelandair ætlar einnig að hefja flug til þeirra tveggja síðarnefndu á næstu vikum auk Kansas City. Svona mikil viðbót við Ameríkuflug frá Keflavíkurflugvelli á sér engin fordæmi. Alla vega ekki á jafn stuttu tímabili.

Snúa aftur til Stansted

Ferðin til Detroit var þó ekki sú eina á dagskrá gærdagsins sem markaði ákveðin skil í sögu WOW air því á tók félagið upp þráðinn á ný á Stansed flugvelli við Lundúnir. En fyrsta sumarið sem WOW air var starfrækt þá var Stansted heimahöfn félagsins í bresku höfuðborginni. Strax um haustið færði WOW sig hins vegar til Gatwick og verða báðir flugvellirnir núna á sumar og haustdagskrá flugfélagins.