Icelandair rukkar fyrir aukið fótarými

Þrátt fyrir að val á sæti sé innifalið í ódýrustu fargjöldunum hjá Icelandair þá nær það ekki til sætanna þar sem er meira fótapláss.

Stjörnumerktu sætin á myndinni til hægri eru þau sem rukkað er sérstaklega fyrir. Mynd: Icelandair og skjámynd.

Í byrjun vetrar hóf Icelandair að bjóða fargjöld þar sem innritaður farangur var ekki innifalinn en áður hafði komið fram í máli forsvarsmanna fyrirtækisins að von væri á slíku til að félagið gæti staðist verðsamanburð við ódýrustu fargjöld lággjaldaflugfélaganna.  Áfram var þó val á sæti um borð innifalið hjá Icelandair. Öfugt við það sem tíðkast hjá þeim lággjaldaflugfélögum og líka þeim hefðbundnu sem hafa farið hafa þessa leið í verðlagningu.

Núna er Icelandair hins vegar farið að rukka aukalega fyrir sætin sem eru við neyðarútganga þar sem fótarými er meira en almennt gerist. Nemur gjaldið á bilinu 2 til 3 þúsund krónur í flugi innan Evrópu en 4.500 til 6.500 krónur ef haldið er vestur um haf samkvæmt athugun Túrista. Ekki þarf að borga fyrir að taka frá önnur sæti en þessi fyrrnefndu.

Til samanburðar þá kostar aukalega 1.999 til 2.999 kr. að sitja í sambærilegum sætum í Evrópuflugi WOW air en 3.999 til 5.999 í flugi félagsins til N-Ameríku. Verðið ræðst m.a. af fluglengd en farþegar WOW þurfa einnig að greiða fyrir almenn sæti ef þeir vilja tryggja sér ákveðinn stað í flugvélinni.