Íslendingarnir fylltu ríflega 70 farþegaþotur

Dagana fram að páskum þá fljúga ríflega 2 þúsund Íslendingar á dag til útlanda. Í fyrra var ferðagleðin aðeins meiri og það skrifast kannski á þá staðreynt að þá voru páskarnir síðar á ferðinni.

Edinborg og Orlando voru tvær af þeim borgum sem nutu mestrar hylli yfir páskana hjá farþegum WOW air og Icelandair. MYNDIR: EDINBURGH.ORG OG JORGE MARTINEZ/UNSPLASH

Fréttir af fullum bílastæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar voru áberandi í fréttum fyrir páskana í fyrra og aftur núna. Og þessi mikla ásókn í stæðin segir sitt um hversu margir Íslendingar halda út í heim á þessum tíma árs enda eru það aðallega ökutæki heimamanna sem lagt er á þessu risastóra bílaplani norður af flugstöðinni. Í fyrra voru páskarnir í apríl og því vor í lofti bæði Evrópu og N-Ameríku og í þeim mánuði fóru samtals 62 þúsund Íslendingar til útlanda. Aldrei áður höfðu svo margir verið á ferðinni í einum mánuði ef frá er talinn júní í hittifyrra þegar fólksflutningar á EM í Frakklandi stóðu yfir. Í nýliðnum mars fóru hins vegar nokkru færri Íslendingar út í heim eða nærri 57 þúsund farþegar.

En þegar aðeins er litið til brottfara Íslendinga í vikunni fyrir páskadag þá kemur í ljós að 10. til 15. apríl í fyrra þá innrituðu 14.357 Íslendingar sig í flug frá Keflavíkurflugvelli en þessa sex daga fyrir páskadaginn í ár voru íslensku farþegarnir 13.315 talsins samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu. Það hefur því þurft rétt rúmlega 70 hefðbundnar farþegaþotur til að flytja alla Íslendinga út í heim fyrir páska en til samanburðar þá var boðið upp á nærri 400 áætlunarferðir frá Keflavíkurflugvelli þessa sömu daga. Íslendingarnir hafa þá fyllt um fimmtu hverju þotu.

Icelandair og WOW air stóðu undir langstærstum hluta þessara flugferða en það voru hins vegar mismunandi borgir sem nutu mestrar hylli hjá íslenskum farþegum flugfélaganna tveggja líkt og Túristi greindi frá.