Íslensku símafyrirtækin gera sig klár fyrir HM í Rússlandi

Það stefnir í að mörg þúsundir Íslendinga verði á ferðinni í Rússlandi í sumar og íslensku símafyrirtækin eru af þeim sökum að gera breytingar á verðskrám sínum.

Það borgar sig að bóka sérstaka ferðaþjónustur símafyrirtækjanna áður en lagt er í hann til Rússlands. Mynd: Thomas Serer / Unsplash

Það var geysimikil eftirspurn eftir miðum á fyrsta leik íslenska karlalandsliðsins á HM í Rússlandi í sumar og fastlega má gera ráð fyrir þúsundum Íslendinga í Moskvu þann 16. júní. Fjöldi fólks mun svo halda til Volgograd og Rostov í framhaldinu og jafnvel víðar ef landsliðinu gengur vel.  Margir þessara íslensku ferðalanga munu svo vafalítið nýta sér snjallsímann til að rata um götur þessara borga enda eru ekki margir á heimavelli í Rússlandi. Og svo munu símtækin auðvitað nýtast vel til að deila gleðinni með fólkinu heima í gegnum samfélagsmiðlana.

Það kostar hins vegar íslenskan símnotanda þúsundir króna að nota Google Maps eða Facebook í Rússlandi í nokkrar mínútur eins og staðan er í dag. Nema ef viðkomandi hafi áður virkjað þær sérþjónustur sem símafyrirtækin bjóða viðskiptavinum sínum upp á í tengslum við ferðalög út í heimi.

Rússland hefur þó ekki alltaf verið hluti af þessum þjónustuleiðum og þannig var landinu nýverið bætt við Ferðapakka Símans og til stendur að gera slíkt hið sama hjá Hringdu. Hjá Vodafone er Rússland eitt þeirra landa sem Traveller-þjónusta fyrirtækisins nær til og segir Guðfinnur Sigurvinsson, samskiptastjóri, að nú sé unnið að því útvíkka samninganet fyrirtækisins í Rússlandi til að tryggja betra samband og hagstæðari kjör. Hin almenna verðskrá íslensku símafyrirtækjanna fyrir símanotkun í Rússlandi er þó ennþá há en verðið mun lækka áður en íslensku stuðningsmennirnir halda til Rússlands. Hjá Símanum verður til að mynda verðið á gagnanotkun lækkað úr 2.990 kr. per megabæt niður í 99 kr. um næstu mánaðarmót að sögn Guðmundar Jóhannssonar, samskiptafulltrúa. Þrátt fyrir þá miklu lækkun þá mælist Guðmundur til þess að þeir viðskiptavinir Símans sem stefni á HM virkji Ferðapakkann áður en haldið er út.

Þess háttar þjónusta kostar 890 kr. hjá Nova, 990 kr. hjá Hringdu og Vodafone en 1.000 kr. hjá Símanum. Það sama er innifalið í daggjaldinu hjá símafyrirtækjunum fjórum, þ.e. símtöl til Íslands, SMS, MMS og móttekin símtöl auk 500 megabæta. Eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan þá ætti það gagnmagn að duga hefðbundnum notanda.