Launaþjófnaður á hestaleigum

Forsvarsfólk ASÍ og Starfsgreinasambandsins lítur undirboð heistaleigufyrirtækja alvarlegum augum.

Íslenskir hestar, sem tengjast ekki efni greinarinnar. Mynd: Fabian Burghardt / Unsplash

Stjórnendur nokkurra íslenskra hestaleigufyrirtækja bjóða erlendu fólki vinnu á kjörum sem jafnast á við félagsleg undirboð. Þetta kemur fram í ítarlegri úttekt í nýjasta tölublaði Stundarinnar. Þar er fullyrt að fjöldi íslenskra hestaleiga sparar sér tugi milljóna á hverju ári með þessum undirboðum og öðlast þannig gríðarlegt samkeppnisforskot gagnvart þeim fyrirtækjum sem fylgja lögum og reglum og greiða starfsfólki samkvæmt kjarasamningum.

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdarstjóri ASÍ, segir þetta skólabókardæmi um brotastarfsemi sem sé alltof algeng í ferðaþjónustu á Íslandi. Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, er sama sinnis og segir sambandið hafa verulegar áhyggjur af félagslegum undirboðum hjá hestaleigufyrirtækjum.

„Í raun er þetta ekkert annað en launaþjófnaður,“ segir Halldór Grönvold og bendir á að ólíkt því sem tíðkast víða annars staðar séu kjarasamningar á Íslandi lágmarksréttindi samkvæmt lögum. Það að fylgja þeim ekki feli í sér launaþjófnað segir Halldór í viðtali við Stundina og segir birtingarmyndirnar séu einkum þrenns konar. „Í fyrsta lagi eru greidd laun langt undir kjarasamningum, það er ein myndin. Önnur myndin er þegar starfsmenn eru ráðnir sem sjálfboðaliðar en látnir vinna störf sem kjarasamningar gilda um. Í þriðja lagi er algengt að menn skýli sér á bak við að fólk komi í einhvers konar starfsnám eða starfsþjálfun. Í grunninn er þetta ekkert annað en brotastarfsemi, því um þessi störf gilda kjarasamningar og kjarasamningar kveða á um lágmarksréttindi varðandi laun og önnur starfskjör. Allt annað er með öllu ólíðandi.“

Nánar um málið á vef Stundarinnar.