Líkur á að ferðafólki hafi fækkað í mars

Fjöldi þeirra útlendinga sem flaug frá landinu í mars jókst lítillega en miðað við skekkjurnar í talningunni þá gæti ferðamönnum í raun hafa fækkað.

Island seljalandsfoss taylor leopold
Mynd: Taylor Leopold / Unsplash

Um 173 þúsund erlendir flugfarþegar flugu frá Keflavíkurflugvelli í mars sem er fjölgun um rúmlega 5 þúsund farþega frá sama tíma í fyrra. Hlutfallslega nam aukningin 3 prósentum sem er miklu minni viðbót en sést hefur í talningu Ferðamálastofu um langt skeið. Og með hliðsjón af þeirri skekkju sem er í talningunni þá má gera ráð fyrir ferðafólkinu hafi í raun fækkað. Þannig sýndi könnun sem Isavia gerði síðastliðið sumar að 14% af erlendu brottfararfarþegunum voru útlendingar búsettir á Íslandi, sjálftengifarþegar eða flugfarþegar sem stoppuðu aðeins yfir dagspart og gistu ekki. Hlutfall þessara hópa var samtals 8% í könnun sem gerð var í nóvember.

Hvort það sama eigi við núna í lok vetrar er ekki hægt að segja til um en gera má ráð fyrir að hlutfallið sé ennþá hátt. Þannig fjölgaði Pólverjum langmest í hausum talið í mars, eða um 3148, en þar eru mjög líklega á ferðinni Pólverjar sem búsettir eru hér á landi í lengri eða skemmri tíma.

Þessi skekkja var örugglega líka til staðar í talningunni í mars í fyrra en ef við gefum okkur að fjöldi sjálftengifarþega aukist í takt við aukna flugumferð, líkt og gerðist síðastliðið sumar, þá hefur hlutfall þeirra farþega hækkað sem aðeins stoppuðu á Íslandi til að tengja á milli flugferða ólíkra flugfélaga. En þessir farþegar eru teknir með í talningu Ferðamálastofu þar sem þeir fara í gegnum vopnaleitina. Talningin nær hins vegar ekki til þeirra Breta sem flugu beint úr heimabyggð til Akureyrar í mars á vegum bresku ferðaskrifstofunnar Super Break.

Að lokum verður ekki horft framhjá því að Íslendingar búsettir í útlöndum eru í raun ferðamenn hér á landi þó þeir séu taldir sem íslenskir farþegar. En fjöldi íslenskra farþega jókst um 38,9% sem skrifast að miklu leyti á þá staðreynd að í ár voru páskarnir í mars en í apríl í fyrra. Og þar sem talningin fer fram þegar fólk flýgur frá landinu þá eru þeir útlendingar sem dvöldu hér um páskana ekki með í tölunum fyrir mars.