Listaverð nýju breiðþotanna um 117 milljarðar króna

Í lok árs tekur WOW air á móti fjórum splunkunýjum breiðþotum og listaverð þeirra er nærri 50 milljörðum hærra en Icelandair Group er metið á í dag. Samanburðurinn er þó ekki alveg svona einfaldur.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested
Ein af þotum WOW air. Þó ekki af tegundinni A330-900neo eins og væntanlegar eru til landsins á næstu mánuðum. Mynd: Friðrik Örn Hjaltested / WOW air

Flugfloti WOW air mun telja 24 farþegaþotur um áramót og þar af eru fjórar nýjar Air­bus A330-900­neo breiðþotur. Það styttist í afhendingu þeirrar fyrstu samkvæmt frétt Morgunblaðsins en þar kemur jafnframt fram að listaverð einnar svona þotu er 291 milljón bandaríkjadala. Það jafngildlir um 29 milljörðum króna miðað við gengi gjaldmiðlanna í dag og listaverð allra fjögurra er því um 117 milljarðar. Til samanburðar er markaðsverðmæti Icelandair Group 71 milljarður í Kauphöllinni í dag og N1 er metið á jafnmikið og ein Air­bus A330-900­neo breiðþota kostar.

Þessi samanburður gefur þó ekki alveg rétta mynd. Fyrir það fyrsta þá munu flugvélaframleiðendur ávallt veita mjög háa afslætti af listaverði flugvélanna eða á bilinu 20 til 50 prósent. Í öðru lagi þá er WOW air ekki að kaupa þoturnar nýju heldur leigja til 12 ára samkvæmt frétt Morgunblaðsins . Það er fyrirtækið CIT Aerospace In­ternati­onal sem á þoturnar en fyrirtækið hefur pantað 15 flugvélar af þessari sömu tegund.

Samkvæmt upplýsingum frá WOW air þá eru fjórar af þeim þotum sem félagið hefur til ráðstöfunar teknar á fjármögnunarleigu. Það þýðir að flugfélagið eignast þoturnar að leigutíma loknum. Hinar 20 þoturnar eru hins vegar á þurrleigu og þeim getur WOW skilað í lok samningstímans. Miðað við ofangreint þá eru nýju breiðþoturnar fjórar á þess háttar leigu.

Fastlega má gera ráð fyrir að þessar fjórar breiðþotur verði nýttar í Asíuflug WOW air sem væntanlega hefst í lok þessa árs. Meðal áfangastaða sem nefndir hafa verið sem ákjósanlegir fyrir WOW air eru Delhí, Mumbai, Peking og Hong Kong.