Máttur „Ónáðið ekki“ skiltisins minnkar

Hótelgestir sem vilja fá að vera í friði geta ekki lengur stólað á að miði á hurðahúninum haldi hótelstarfsfólki frá.

Mynd: Bill Anastas/Unsplash

Herbergisþernur eru árrisul stétt og því oftar en ekki komnar á ferðina löngu á undan gestunum. Sérstaklega þeim sem liggur ekki á og vilja sofa örlítið lengur. Sá hópur hefur hingað til geta sett skilti á hurðahúninn sem á stendur „Do not disturb“ eða „Ónáðið ekki“ og þannig getað komið í veg fyrir að inn á gólfi hjá þeim birtist hótelstarfsmaður. En það þekkist að sumir láti þessi skilti hanga á hurðinni svo dögum skiptir og það gerði einmitt gestur á Mandalay Bay hótelinu í Las Vegas í október í fyrra á meðan hann undirbjó skotárás á tónleikagesti fyrir utan hótelið. Í henni létust 58 og nærri 900 særðust.

Í kjölfarið breyttu nokkrar hótelkeðjur vestanhafs reglum sínum varðandi hurðaskiltin og nú er víða gerð krafa um að gestirnir hleypi hótelstarfsfólki inn til sín að minnsta kosti einu sinni á sólarhring. Í frétt CNN kemur reyndar fram að löngu áður en hið hræðilega fjöldamorð átti sér stað í Las Vegas þá hafi það lengi verið rætt innan hótelgeirans að skiltin væru misnotuð í tenglsum við vændi, mannsal og eiturlyfjasölu.

Það flækir hins vegar málið að síðustu ár hafa einhverjar hótelkeðjur tekið upp á því að bjóða gestum afslátt eða gjafakort gegn því að þeir sjái sjálfir um að skipta á rúmum eða hafni alfarið allri herbergisþjónustu. Og þeir sem kjósa þann kost eiga að hengja skilti á hurðina sem á stendur „Do not disturb“.

Það er því ekki útilokað að þrátt fyrir allt geti hótelgestir áfram haldið áfram að tryggja sér frið í morgunsárið með því að hengja miða á hurðina en í staðinn þurfa þeir þá kannski að sjá sjálfir um þrifin.