Nærri 4,7 milljónir á ári fyrir stjórnarformann Isavia

Laun stjórnarfólks Isavia voru hækkuð á ársfundi ríkisfyrirtækisins fyrir helgi. Stjórnarformaðurinn er á hærri launum en starfsbróðir hans í Finnlandi.

Ingimundur Sigurpálsson stjórnarformaður Isavia. Mynd: Isavia

Í lok síðustu viku var ný stjórn Isavia skipuð en þá fór fram ársfundur þessa opinbera hlutafélags.  Venju samkvæmt eru það aðeins fulltrúar flokkanna á Alþingi sem sitja í stjórninni en segja má þetta fyrirkomulag vera séríslenskt því stjórnir þeirra fyrirtækja sem sjá um rekstur flugvallanna í Noregi og Svíþjóð eru ekki skipaðar pólitískt líkt og Túristi greindi frá.

Á ársfundi Isavia var samþykkt að laun stjórnarmanna myndu hækka úr 180 þúsund krónum á mánuði í 195 þúsund kr. fyrir starfsárið 2018 til 2019. Stjórnarformaðurinn fær tvöfalda þá upphæð en það er Ingimundur Sigurpálsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem hefur verið formaður stjórnarinnar síðan árið 2014. Eftir hækkunina mun hann fá nærri 4,7 milljónir á ári fyrir formannsembættið. Ingimundur er einnig forstjóri Íslandspósts sem jafnframt er í eigu hins opinbera.

Næst hæstu stjórnarlaunin frá Isavia fær Matthías Imsland, fulltrúi Framsóknarflokksins, því hann situr bæði í stjórn Isavia og Fríhafnarinnar, sem er dótturfélag þess fyrrnefnda. Mánaðargreiðslur til Matthíasar munu nema 315 þúsund krónum eða sem samsvarar nærri  3,8 milljónum á ári. Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins og núverandi formaður stjórnar Fríhafnarinnar, fær 240 þúsund kr. á mánuði eða um 2,9 milljónir á ári fyrir formennskuna hjá Fríhöfninni. Almennir stjórnarmenn í Isavia fá rúmar 2,3 milljónir kr. á ári en þau sem sitja í stjórn Fríhafnarinnar fá tæpa eina og hálfa milljón á ári.

Finnar borga fyrir stjórnarfundi

Sem fyrr segir nemur mánaðarleg greiðsla til stjórnarformanns Isavia 390 þúsund krónum á mánuði en til samanburðar má þess geta að formaður stjórnar Finavia, ríkisfyrirtækisins sem sér um rekstur flugvallanna í Finnlandi, nemur 205 þúsund krónum (1700 evrur). Sá fær einnig greiddar um 60 þúsund krónur fyrir hvern fund en varamenn í stjórn Isavia fá betur borgað eða 80 þúsund kr. fyrir þá fundi sem þau sitja. Í fyrra mætti finnski stjórnarformaðurinn á alla stjórnarfundi Finavia og fékk samtals um 4,3 milljónir fyrir störf sín.

Túristi hefur óskað eftir upplýsingum um hversu margir stjórnarfundirnir voru hjá Isavia á síðasta starfsári og hversu vel stjórnarmeðlimir mættu. En sem fyrr segir eru þess háttar upplýsingar birtar í ársskýrslu Finavia.

Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar kom fram að stjórnarfundir hjá Finavia hafi verið 30 talsins í fyrra. Var þar miðað við heildargreiðslur til stjórnarformannsins en hann fær greitt sérstaklega fyrir hver fund. Hið rétta er hins vegar að stjórnarfundirnir voru aðeins 13 talsins en hinir 17 fundirnir sem stjórnarformaðurinn fékk greitt fyrir voru með stjórnendum starfsmannamála Finavia.