Nýr forstöðumaður á sölusviði Icelandair

Aðalheiður Kristinsdóttir á að baki mörg ár hjá Icelandair og tekur nú við sölustýringu flugfélagsins.

Aðalheiður Kristinsdóttir. Mynd: Icelandair

Aðalheiður Kristinsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður Sölustýringar Icelandair. Deildin er hluti af sölu- og markaðssviði félagsins og annast sölustarf Icelandair um allan heim. Aðalheiður hefur starfað hjá Icelandair síðan 2006 sem verkefnastjóri bæði í tekjustýringu og við rekstrargreiningar á sölu- og markaðssviði samkvæmt því sem segir í tilkynningu.

Áður starfði hún sem birgðastjóri Hagkaupa, og verkefnastjóri hjá Högum. Aðalheiður hefur lokið BS prófi í rekstrarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands.

Aðalheiður tekur við af Einari Páli Tómassyni sem hóf nýverið störf sem forstöðumaður alþjóðasviðs Borgunar.