Öllum frjálst að stunda akstur til og frá Bláa lóninu

Forsvarsmenn Bláa lónsins vísa fullyrðingum Gray Line um samkeppnishindranir á bug.

Mynd: Bláa lónið

Ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line tilkynnti í gær að fyrirtækið myndi segja upp um 15 starfsmönnum í kjölfar samdráttar í sætaferðum til og frá Bláa lóninu. Breytingin er rakin til þess að Bláa lónið, í samstarfi við Hópbíla, býður nú upp á sínar eigin ferðir til og frá baðstaðnum og nú bjóðist Gray Line því ekki lengur að selja miða ofan í lónið með áætlunarferðunum. Í tilkynningu sem Bláa lónið sendi frá sér í dag er þessum fullyrðingum vísað á bug.

„Gray Line hefur í krafti stærðar sinnar notið þeirrar sérstöðu undanfarin ár, umfram flesta aðra samkeppnisaðila þeirra á ferðaþjónustumarkaðnum, að hafa fengið að selja aðgang að Bláa Lóninu í gegnum rafræna beinlínutengingu. Fjölmargir ferðaþjónustuaðilar hafa, þrátt fyrir sérstöðu Gray Line að þessu leyti, stundað hópferðaakstur til og frá Bláa Lóninu bæði með og án þess að selja aðgang að samhliða. Með því að fella niður rafræna beinlínutengingu Gray Line við kerfi Bláa Lónsins er þannig þvert á móti verið að jafna stöðu Gray Line og annarra aðila á ferðaþjónustumarkaði.“

Í tilkynningunni segir jafnframt að ástæða þess að Bláa lónið bjóði nú sjálft upp á sætaferðir að baðstaðnum sé sú að þannig megi bjóða upp á víðtækari þjónustu, tryggja samræmi, bæta upplifun gesta og jafna flæði gesta. Tekið er fram að þessar breytingar hafi legið fyrir í langan tíma og því verið stjórnendum Gray Line að fullu kunnar. „Hér eftir sem hingað til er öllum ferðaþjónustuaðilum frjálst að stunda akstur til og frá Bláa Lóninu og mun Bláa Lónið hf. áfram kappkosta að eiga gott samstarf við fjölmarga samstarfsaðila sína í íslenskri ferðaþjónustu,“ segir að lokum í tilkynningunni.

Líkt og Túristi benti á í gær þá er þessi deila sem nú er komin upp milli Bláa lónsins og Gray Line m.a. merkileg fyrir þær sakir að forsvarsmenn fyrirtækjanna tveggja hafa síðustu ár leitt Samtök ferðaþjónustunnar. Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, var formaður samtakanna en Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, varaformaður. Þeir létu báðir af embættum í síðasta mánuði þegar ný forysta samtakanna var kjörin.