Óvíst með framhald á flugi til Miami

Síðastliðið ár hafa þotur WOW air flogið þrisvar sinnum í viku til Miami en nú eru ekki fleiri ferðir á dagskrá.

South Beach í Miami. Mynd: Guzman Barquin / Unsplash

WOW air fór jómfrúarferð sína til Miami á Flórída fyrir ári síðan en síðastliðið haust gaf félagið út að hlé yrði gert á fluginu þangað nú í sumar. Síðasta ferð vetrarins var farin fyrir helgi og á heimasíðu WOW air er ennþá ekki hægt að bóka flug til Miami næsta vetur. Skýringin á því er sú að ekki er komið á hreint hvort Miami verði hluti af næstu vetraráætlun WOW air að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa flugfélagsins.

WOW air hefur verið eitt um flugið milli Íslands og Miami en áfangastaðir Icelandair á Flórídaskaganum eru Orlandó og Tampa. Það verður því að teljast ólíklegt að forsvarsmenn Icelandair hefji flug til Miami ef WOW air tekur ekki upp þráðinn í haust en Íslandsflug frá Miami gæti verið kostur fyrir American Airlines. En þetta stærsta flugfélagi í heimi hefur flug hingað til lands í sumar frá Dallas í Texas en flugvöllurinn Miami er einn þeirra sem American Airlines nýtir fyrir flug til Evrópu.

Hvort sem WOW air heldur áfram í Miami eða ekki þá er ljóst að flugstöðin þar er ekki hátt skrifuð hjá skríbentum Economist. Í nýjasta tölublaði tímaritsins segir að þrír fjölfarnir flugvellir í Bandaríkjunum geti gert tilkall til þess að komast á lista yfir verstu flughafnir í heimi, þ.e. Washington Dulles, JFK í New York og Miami. Sá síðastnefndi er sagður verstur allra því þar taki álíka tíma að komast í gegnum raðirnar við vegabréfaeftirlitið og það tók Leif Eiríkssonar að sigla yfir Atlantshafið.