Rétt um tólfti hver Kínverji með vegabréf

Þó kínverskum ferðamönnum fjölgi hratt víða um heim þá er lítill hluti þjóðarinnar á ferðinni.

Frá Sjanghæ. Mynd: Hanny Naibaho/Unsplash

Kínverjar voru sjötta fjölmennasta þjóðin í hópi ferðamanna hér á landi á síðasta ári og fjölgaði þeim þá um fjórðung frá árinu á undan. Í heild heimsóttu um 86 þúsund Kínverjar Ísland í fyrra en spár kínverskra stjórnvalda munu gera ráð fyrir stóraukinni ásókn þarlendra í Íslandsferðir. Og það gæti orðið raunin þegar beint flug hefst milli Kína og Íslands en gera má ráð fyrir að kínversk borg verði einn þeirra áfangastaða sem WOW air mun kynna í Asíu á næstunni.

Í Kína búa um 1,4 milljarður manna og því er spáð að árið 2030 verði Kína orðið stærsti markaður heims fyrir utanlandsferðir. Bandaríkin hafa verið í forystusætinu en það mun þá breytast fyrr en síðar gangi þessar spár eftir. En til að það gerist þá þurfa fleiri Kínverjar að sækja um vegabréf því samkvæmt frétt Sænska dagblaðsins þá mun aðeins 8,7% þjóðarinnar eiga einn slíkan.