Segir ferðamálastefnuna ekki komna ofan í skúffu

Beðið hefur verið eftir útspili norsku ríkisstjórnarinnar í málefnum ferðaþjónustunnar alltof of lengi að mati forsvarsfólks greinarinnar. Það mun þó vera alvanalegt að ríkisstjórnir þar í landi dragi lappirnar í þessum málaflokki.

oslo haust
Haustlitirnir í Noregi. Mynd: Visit Oslo

Nú er eitt ár liðið frá því að norska ríkisstjórnin kynnti stefnu sína í málefnum ferðaþjónustunnar en ennþá bólar ekkert á aðgerðum. Í samtali við norska Dagblaðið segir Kristin Krohn Devold, framkvæmdastjóri NHO Reiseliv, samtaka norsku ferðaþjónustunnar, að þolinmæði forsvarsfólks í greininni sé á þrotum. „Ég hef trú á því að við höfum fengið öflugan ráðherra sem geti komið hlutum í verk en hvað varð um öll loforðin sem sett voru fram í ferðamálastefnunni,“ spyr Devold sem sjálf var varnarmálaráðherra í Noregi á árunum 2001-2005.

Í ferðastefnu norsku ríkisstjórnarinnar var m.a. rætt um að lækka eignaskatt á gististaðaeigendur og efla rannsóknir greinarinnar, t.d með hliðsjón af umsvifum Airbnb. Einnig er á stefnuskránni að auðvelda ferðafólki að komast á milli staða í Noregi án þess að ferðast um í einkabíl.

Í frétt norska Dagblaðsins er bent á að síðustu áratugi hafa hinar ýmsu ríkisstjórnir í Noregi kynnt alls kyns stefnur fyrir ferðaþjónustu landsins en flestar þeirra hafi endað ofan í skúffu.

Torbjørn Røe Isaksen, viðskiptaráðherra, sem fer fyrir ferðamálunum í stjórninni, segir að það muni hins vegar ekki gerast á sinni vakt. Hann bendir á að nú þegar séu mörg verkefni í vinnslu, til að mynda frumvarp sem skyldi Airbnb til að upplýsa skattayfirvöld um umsvif sín.