Skúli tekur slaginn við Andra Má á Stansted

Farþegar á Stansted flugvelli í London geta nú valið úr beinu flugi með Primera Air til N-Ameríku en geta líka flogið með WOW air vestur um haf með stuttri millilendingu á Keflavíkurflugvelli.

Myndir: London Stansted

Primera Air, sem eru í eigu Andra Más Ingólfssonar, hefur hingað til nær eingöngu sinnt leiguflugi fyrir þær ferðaskrifstofur sem heyra undir Primera samsteypuna. Flugfélagið hefur hins vegar breytt um kúrs og kynnir sig núna sem lággjaldaflugfélag sem býður upp á ódýrt áætlunarflug yfir Atlantshafið. Á sama hátt og Norwegian og WOW air hafa gert síðustu ár.

Nýverið fór Primera Air jómfrúarferð sína vestur um haf frá Stansted í London en á þeim flugvelli verða umsvifin í Ameríkuflugi flugfélagsins mest. Munu þotur Primera Air fljúga frá Stansted til New York, Washington borgar og Toronto í Kanada. Þessar þrjár borgir eru líka hluti af leiðakerfi WOW air en hins vegar hefur WOW air gert út frá Gatwick flugvelli í London en ekki Stansted.

Á því varð hins vegar breyting í gær þegar WOW air hóf að bjóða upp á áætlunarflug frá Stansted og nú geta farþegar flugvallarins valið á milli áætlunarferða lággjaldaflugfélaganna tveggja yfir hafið. Engin önnur flugfélög fljúga vestur um haf frá Stansted og því má segja að þarna sitji Primera Air og WOW air ein að markaðnum. Þó auðvitað er mikið framboð af Ameríkuflugi frá bæði Gatwick og Heathrow sem einnig eru á Lundunarsvæðinu.

Af verðunum að dæma þá eru forsvarsmenn WOW air og Primera tilbúnir til að bjóða mjög lág fargjöld frá Stansted til Bandaríkjanna. Samkvæmt athugun Túrista bjóða félögin farmiða, báðar leiðir, milli Stansted og New York á bilinu 40 til 60 þúsund krónur næstu vikur sem verður að teljast lítið fyrir farmiða sem pantaður er svo stuttu fyrir brottför. Þessi fargjöld eru hins vegar berstrípuð og fylgir þeim aðeins handfarangur.

Það er einnig áhugavert við þessa samkeppni lággjaldaflugfélaganna að þotur WOW air halda frá Stansted kl. 17:20 á meðan brottför Primera Air til New York er á dagskrá hálf tíma síðar.