Stjórn Isavia fundaði 17 sinnum

Stjórn Isavia kemur oftar saman en stjórnir ríkisfyrirtækjanna sem reka flugvellina í Noregi og Finnlandi.

Í nýrri stjórn Isavia sitja (frá vinstri) Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, Matthías Imsland, Valdimar Halldórsson, Eva Pandora Baldursdóttir og Ingimundur Sigurpálsson. MYNDIR: ÍSLANDSPÓSTUR, MIÐFLOKKURINN, ALÞINGI, HVALASAFNIÐ OG STJÓRNARRÁÐIÐ

Á síðasta starfsári kom stjórn Isavia saman sautján sinnum og tvisvar sinnum voru varamenn kallaðir inn. Þetta kemur fram í svari frá Isavia við fyrirspurn Túrista. Til samanburðar þá voru haldnir 14 fundir í stjórn Finavia og að jafnaði eru stjórnarfundirnar 8 til 10 á ári hjá Avinor samkvæmt svörum talsmanna fyrirtækjanna tveggja. Ingimundur Sigurpálsson, stjórnarformaður Isavia, mætti á alla fundina í fyrra en líkt og Túristi greindi frá þá verða laun Ingimundar, fyrir stjórnarformennskuna, í heildina um 4,7 miljónir á því starfsári sem var að hefjast.

Aðstoðarkonan fengi ekki sæti í Noregi

Á ársfundi Isavia í síðustu viku var ný stjórn fyrirtækisins skipuð en í henni eiga aðeins sæti fulltrúar þingflokkanna. Stjórnin er því skipuð pólitískt en þess háttar tíðkast ekki í nágrannalöndunum. Í Svíþjóð og Noregi koma stjórnarmeðlimir oftar en ekki úr atvinnulífinu og hafa verið valdir út frá ákveðnum kröfum. Í Noregi gildir einnig sú regla að embættismenn og fólk í opinberri þjónustu má ekki sitja í stjórnum ríkisfyrirtækja samkvæmt svari frá norska samgönguráðuneytinu. Í því ljósi er áhugavert að í varastjórn Isavia er Ingveldur Sæmundsdóttir sem er jafnframt aðstoðarkona Sigurður Inga Jóhannssonar samgönguráðherra. Þessi tvö dæmi sýna hversu reglur um stjórnarsetu í opinberum fyrirtækjum hér á landi eru mun takmarkaðri en hjá frændþjóðunum.

Víxlaði Pírötunum

Í stjórn Isavia sitja fimm manns, þrír karlar frá stjórnarflokkunum og konur frá Pírötum og Miðflokknum. Frambjóðandi Pírata í aðalstjórn var hins vegar Hreiðar Eiríksson en Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kaus heldur varamann Pírata, Evu Pandoru Baldursdóttur. Þannig var kynjahlutfallið betra því sem fyrr segir voru aðalframbjóðendur stjórnarflokkanna allt karlar. Frá Miðflokki valdi fjármálaráðherra Nönnu Margréti Gunnlaugsdóttur en hún er systir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Í stjórnum ríkisfyrirtækjanna sem reka flugvellina í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi fá fulltrúar starfsfólks einnig sæti líkt og almennar reglur kveða á um í þessum löndum. Túristi hefur sent fyrirspurn á Ingimund Sigurpálsson, stjórnarformann Isavia, og spurt hvort honum þætti það til framdráttar að sami háttur yrði hafður á hjá Isavia. Ingimundur hefur ekki svarað og eins hafa ekki fengist svör frá fjármálaráðuneytinu né Sjálfstæðisflokknum. Forsvarsmenn hinna flokkanna sem eiga sæti í stjórn Isavia hafa hins vegar svarað fyrirspurnum Túrista.

Þess ber að geta að í frétt sem Túristi birti í byrjun vikunnar kom fram að stjórnarfundir hjá Finavia hafi verið 30 talsins í fyrra. Var þar miðað við heildargreiðslur til stjórnarformannsins en hann fær greitt sérstaklega fyrir hver fund. Hið rétta er hins vegar að stjórnarfundirnir voru aðeins 13 talsins en hinir 17 fundirnir sem stjórnarformaðurinn fékk greitt fyrir voru með stjórnendum starfsmannamála Finavia.