Tekjur á hvern farþega lækkuðu um fimmtung

Hlutfallslega fjölgaði farþegum WOW meira í fyrra en tekjunum en almennt fóru fargjöld lækkandi í fyrra. Félagið hefur ekki birt rekstrarniðurstöður síðasta árs.

wow gma Friðrik Örn Hjaltested
Mynd: Friðrik Örn Hjaltested / WOW air

Hagnaður af rekstri WOW air árið 2016 nam 4,3 milljörðum samkvæmt tilkynningu sem félagið sendi frá sér í febrúarlok í fyrra. Félagið hefur ekki ennþá birt afkomu sína fyrir árið 2017 en í viðtali við Morgunblaðið í vikunni sagði Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi, flugfélagsins að velta þess í fyrra hefði numið 50 milljörðum. Í fyrrnefndu uppgjöri fyrir árið 2016 kom fram að veltan það ár hafi verið 36,7 milljarðar en þá flaug félagið með nærri 1,7 milljón farþega. Tekjur á hvern farþega hafa því árið 2016 numið rétt um 22 þúsund krónum sem var samdráttur upp á 4% frá árinu 2015.

Árið 2017 voru farþegar WOW air hins vegar um 2,8 milljónir en veltan, sem fyrr segir, 50 milljarðar. Það þýðir að tekjur á hvern farþega hafa verið um 17.500 krónur eða um fimmtungi lægri en árið 2016. Í ár gera áætlanir WOW air ráð fyrir um 3,7 milljón farþega og veltu upp á 70 milljarða. Þar með verða tekjur á hvern farþega nokkru hærri en í fyrra.

Eins og sjá má þá eru tölurnar um veltu og farþegafjölda hjá WOW air námundaðar og samanburðurinn er þar með ekki nákvæmur. Hann sýnir engu að síður að veltan hefur ekki haldist í hendur við farþegaukninguna sem er vísbending um að meðalflugfargjaldið hjá WOW hafi lækkað umtalsvert milli áranna 2016 og 2017. En hversu mikið er ómögulegt að ráða út frá þessum tölum því flugfélög hafa líka aðrar tekjur, t.d af fraktflugi.

Ódýrari farmiðar en aukin kostnaður

Almennt lækkuðu þó fargjöld í fyrra og það var ein meginástæða þess að stjórnendur Icelandair sendu frá sér afkomuviðvörun í febrúar í fyrra. Á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs lækkaði meðalfargjaldið hjá Icelandair um 13% en hina mánuði var það álíka og það hafði verið árið á undan. Í uppgjöri norska lággjaldaflugfélagsins Norwegian, sem er stórtækt í flugi yfir Atlantshafið líkt og íslensku flugfélögin, lækkaði meðalfargjaldið fyrstu þrjá mánuðina í fyrra um 17% en allt árið nam lækkunin 9%. Á sama tíma hækkaði olíuverð um rúman fimmtung og hefur sú þróun haldið áfram í ár og er olíuverð núna nærri 40% hærra en það var í fyrra.

Samkeppnin heldur verðinu niðri

Sú staðreynd að olíuverðið hefur hækkað svona mikið er ástæða þess að sérfræðingar Arion banka gera ráð fyrir verri afkomu hjá Icelandair á fyrsta ársfjórðungi ársins. En uppgjörið verður kynnt í lok þessa mánaðar. Í greiningu bankans segir að meðalfargjöld verði að hækka til að vega upp á móti auknum kostnaði og óhagstæðri gengisþróun. Í viðtali við Túrista í vikunni sagði Skúli Mogensen hins vegar að hann ætti ekki von á því að fargjöld myndu hækka því samkeppnin væri hörð. „Núna reynir á að hafa betri kostnaðarstrúktur en samkeppnisaðilarnir”, bætti Skúli við.

Í því samhengi má benda á að WOW air hefur verið óvarið fyrir olíuhækkunum á meðan Icelandair kaupir rúmlega helming af öllu sínu eldsneyti á föstu verði fram í tímann. Sérfræðingar IATA, alþjóða samtaka flugfélaga, gera ráð fyrir að kaup á þotueldsneyti verði um fimmtungur af heildarkostnaði flugfélaga í ár.