Þangað flugu Íslendingar um páskana

Það voru ekki sömu borgirnar sem nutu mestrar hylli hjá íslenskum farþegum Icelandair og WOW air yfir páskahelgina.

Íslendingar hafa verið á ferð við kastala í Edinborg og Orlando um páskana. Myndir: edinburgh.org og Jorge Martinez/Unsplash

Landinn var á ferðinni um páskana og til marks um það þá fylltust bílastæðin við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Og þeir sem nýtu sér frídagana í lok síðustu viku til að ferðast út í heim höfðu úr miklu að moða og til að mynda voru farnar hátt í sjötíu ferðir frá Keflavíkurflugvelli á skírdag. Framboðið var því mikið og úr ferðum nokkurra flugfélaga og ferðaskrifstofa að velja en þrátt fyrir það standa Icelandair og WOW air undir bróðurpartinum eða um 7 af hverjum 10 ferðum.

Þær borgir sem mestra vinsælda nutu meðal íslenskra farþega Icelandair og WOW air um páskana voru þó ekki þær sömu hjá félögunum báðum. Þrátt fyrir að bæði tvö fljúga oft á sömu staðina. Hjá WOW air voru því sem næst öll flug fullbókuð um páskana og salan ein sú mesta yfir páska frá því að félagið var stofnað að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur hjá WOW air. Hún segir að nú sem fyrr séu Tenerife og Barcelona vinsælir áfangastaðir yfir hátíðarnar og eins hafa borgarferðir til Dublin, Edinborgar, Berlínar og Amsterdam selst vel. „Við sjáum einnig aukningu í ferðum Íslendinga til bæði Los Angeles og San Francisco,“ bætir Svanhvít við.

Hjá Icelandair voru það hins vegar höfuðborgirnar í Skandinavíu sem nutu mestrar hylli en þeir sem flugu vestur um haf tóku helst stefnuna á sólina í Orlando eða héldu til New York.

TENGDAR GREINAR: Mikið framboð á ferðum í kringum rauðu dagana í vor