Þau erlendu með stærri sneið af kökunni

Þó íslensku flugfélögin standi ennþá undir bróðurparti allra flugferða frá Keflavíkurflugvelli þá er hlutdeildin mun minni núna en fyrir 5 árum síðan.

7 af hverju 10 þotum sem taka á loft frá Keflavíkurflugvelli eru annað hvort merktar Icelandair eða WOW. Mynd: Isavia

Í mars voru að jafnaði farnar um 64 áætlunarferðir á dag frá Keflavíkurflugvelli eða 15% fleiri brottfarir en á sama tíma í fyrra. Skiptust ferðirnar á milli 15 flugfélaga en sem fyrr standa Icelandair og WOW air undir meginþorra allra flugferða til og frá landinu eða 7 af hverjum 10. Þetta hlutfall hefur þó lækkað umtalsvert síðustu ár því í mars 2013 þá stóð Icelandair, eitt og sér, fyrir um 80% af umferðinni og WOW tíund eins og sjá má á línuritinu. Nú er staðan önnur en ennþá er vægi innlendra flugfélaga mjög hátt hér á landi.

Sumaráætlun flugfélaganna hófst í lok mars og nú er á ný boðið upp á beint flug til fleiri borga en yfir háveturinn. Í síðasta mánuði hófst líka áætlunarflug Wizz Air til Poznan og þar með stundar þetta ungverska lággjaldaflugfélag orðið Íslandsflug frá 5 pólskum borgum.