58 íslenskir hjólarar fóru 300 km í Svíþjóð

Það styttist í að ræst verði út í fjölmennustu hjólreiðakeppni Svíþjóðar en ennþá er hægt að skrá sig til leiks.

Frá Vätternrundan. Mynd: Micke Fransson/Vätternrundan

Þeir sem tóku vel eftir í landafræðitímum í barnaskóla muna vafalítið ennþá eftir þrenningunni Vänern, Vättern og Mälaren. Sennilega hafa þó fáir leitt hugann að þessum þremur stærstu vötnum Svíþjóðar síðan þeir lærðu undir landafræðipróf á sínum tíma og það sem stóð um vötnin í bókinni er auðvitað löngu gleymt. Til upprifjunar má nefna að Vättern er 130 kílómetra langt og 31 km að breidd og leiðin í kringum þetta næststærsta vatn Svíþjóðar er 300 kílómetra löng. Og þá leið er vinsælt að hjóla og sérstaklega í júní þegar Vätternrundan fer fram, fjölmennasta hjólakeppni Svíþjóðar.

Það þurfa ekki allir að hjóla alla leið því einnig eru í boði styttri vegalengdir en í ár er gert ráð fyrir að 23 þúsund hjólareiðagarpar fari alla leið. Auk þess er boðið upp á sérstaka kvennakeppni og svo er hægt að fara hálfa leið eða jafnvel í fjallahjólakeppnina. Möguleikarnir eru margir.

Í fyrra hjóluðu 58 Íslendingar alla 300 kíolómetrana að sögn Ulrika S. Svenstedt kynningarstjóra  Vätternrundan. Hún segir að í heildina mæti til leiks hjólreiðakappar frá um 80 löndum og fyrir utan heimamenn þá koma flestir komi frá Þýskalandi, Noregi, Finnlandi og Danmörku. Ulrika mælist til þess að þeir sem ætla sér að taka þátt í keppninni hugi sem fyrst að skráningu og líka hvar þeir ætli að búa. Það er nefnilega fá hótel í kringum rásmarkið og endamarkið í bænum Motala en þó er ennþá hægt að finna pláss og eins er boðið upp á gistingar í heimahúsum og jafnvel í skólum. Einnig eru tjaldstæði kostur í stöðunni. Aðspurð um hversu leiðina sjálfa þá segir Ulrika að hún sé ekki ýkja krefjandi en fara þurfi upp tvær til þrjár brekkur sem taki á.

Vätternrundan fer fram 15. júní en þessi 300 km hjólreiðakeppni er hluti af nokkrum strembnum keppnum sem teljast vera „Svensk klassiker“. Og í Svíþjóð þykir merkilegt að hafa klárað þær allar. Þátttökugjaldið er rétt um 21 þúsund krónur (1800 sænskar) og í ljósi þess hversu veik sænska krónan er um þessar mundir þá verður seint ódýrara en þetta að vera með. Gjaldið er lægra fyrir styttri hjólakeppninnar við Vättern en þær fara fram í vikunni á undan aðalkeppninni.

Til Svíþjóðar má svo fljúga með Icelandair, WOW og Norwegian til Stokkhólms og auk þess flýgur Icelandair til Gautaborgar. En frá þessum tveimur borgum eru um 250 kílómetrar að rásmarkinu í Motala.