Segir WOW ætla að kúvenda viðskiptafargjöldum

Forstjóri WOW air segir það hafa verið þegjandi samkomulag hjá stóru flugfélögunum að halda farmiðum á fremsta farrýminu háu og boðar hann miklar verðlækkanir.

flug danist soh
Mynd: Danist Soh/Unsplash

Það kostar vanalega margfalt meira að sitja í breiðu sætunum fremst í farþegarýminu en þessum hefðbundnu aftar í flugvélinni. Og þó dýru sætin séu hlutfallslega fá þá skipta tekjurnar af þeim sköpum fyrir flugfélögin. Sérstaklega í flugi yfir Norður-Atlantshafið því samkvæmt nýlegri greiningu IATA, alþjóða samtaka flugfélaga, þá stóðu farþegarnnir í fremsta farrými undir um helmingi tekna flugfélaganna á flugi milli Evrópu og Norður-Ameríku. Það er mun hærra hlutfall en í áætlunarflugi yfir Kyrrahafið eða á milli Evrópu og Asíu.

Það þarf því ekki að undrast að lággjaldaflugfélögin reyni nú að fá fleiri viðskiptaferðalanga um borð. Í vikunni blés WOW air til sóknar með sérstökum „Premium” fargjöldum sem koma í stað „Biz” farmiðanna sem kynntir voru fyrir ári síðan. Skúli Mogensen, forstjóri WOW, segir að „Biz” fargjöldin hafi verið tilraun sem hafi gengið það vel að nú sé ætlunin að fara alla leið og að flestar vélar WOW air verði komnar með stór sæti fyrir „Premium” farþega fyrir sumarbyrjun. Uppsetning á þeim í öllum flugflotanum á að ljúka í sumarlok. Á bilinu 8 til 24 stór sæti verða í hverri þotu.

Betri sæti eru hins vegar ekki aðal málið í samkeppninni um viðskiptaferðalanga því það er verðið og boðar Skúli mikla lækkun á fargjöldunum fyrir þennan hóp enda stenst núverandi verðlagning ekki skoðun að hans mati. „Á meðan almennu fargjöld hafa farið lækkandi þá hækka viðskiptafargjöldin. Bilið þarna á milli er orðið mjög mikið og við teljum okkur geta gert mikið betur og munum bjóða fargjöld sem eru 50 til 70% lægri en það sem gerist og gengur í dag,” segir Skúli. Hann telur þegjandi samkomulag hjá stóru flugfélögunum ástæðuna fyrir því að viðskiptafargjöldin hafi ekki fylgt sömu verðþróun og almenna farmiðarnir.

Af handahófi hefur Túristi borið saman viðskiptafargjöld Icelandair og WOW air á tveimur dagsetningum á næstum vikum. Eins og sjá má þá er WOW nokkru ódýrara í byrjun maí en Icelandair býður betur í júní. Hins vegar er munurinn mikill á fargjöldum félaganna ef flogið er frá London til New York. Á þeirr leið býður hins vegar Norwegian hagstæðara viðskiptafargjald en British Airways er langdýrast. Hafa ber í huga að fargjöldin eru ekki keimlík. Stundum fæst forgangur í vopnaleit með farinu á meðan önnur bjóða upp á aðgang að betri stofum og þráðlaust net.