770 þúsund gestir á vegum Airbnb

Það leikur vafi á því hver raunveruleg umsvif Airbnb eru hér á landi enda veitir fyrirtækið litlar upplýsingar um gang mála. Miðað við þær tölur sem þó hafa fengist má gera ráð fyrir að stærð bandarísku gistimiðlunarinnar hafi verið ofmetin undanfarið.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com
Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Á síðasta ári voru 1,9 milljónir gistinátta hér á landi seldar af fyrirtækjum eins og Airbnb samkvæmt mati sem Hagstofan sendi frá sér nýverið. Þetta er miklu lægri tala en kom fram í ferðaþjónustuskýrslu Íslandsbanka í apríl en þar sagði að 3,2 milljónir gistinátta hér á landi í fyrra mætti rekja til Airbnb. „Airbnb er því orðin næstumfangsmesta gistiþjónusta landsins og um þrisvar sinnum stærri en sú þriðja umfangsmesta sem eru gistiheimili,“ sagði í bankaskýrslunni. Þar voru jafnframt leiddar líkur að því að hlutdeild Airbnb á gistimarkaðnum í ár gæti orðið meiri en allra hótela landsins samanlagt.

Útreikningar Íslandsbanka byggja meðal annars á tölum af Mælaborði ferðaþjónustunnar en þau gögn sem þar eru koma frá fyrirtækinu Airdna. Það fyrirtæki sérhæfir sig í rannsóknum á bandarísku gistimiðluninni en forsvarsmenn Airbnb hafa aftur á móti sagt að þær upplýsingar sem Airdna birtir gefi ekki rétta mynd af rekstri fyrirtækisins. Talsmenn Airbnb hafa þó kosið að útskýra ekki hversu mikil skekkjan er þegar eftir því hefur verið leitað.

Það eru þó vísbendingar um að í skýrslu Íslandsbanka sé verulegt ofmat á stærð Airbnb á Ísland samkvæmt þeim tölum sem Túristi komst yfir um umsvif bandaríska fyrirtækisins á Íslandi árið 2016 og þeim tölum sem fyrirtækið sendi frá sér nýverið. Í þessum nýju tölum segir að samtals hafi gestir Airbnb verið 770 þúsund á Íslandi árið 2017 en þeir voru 520 þúsund í fyrra. Hins vegar fást engar upplýsingar um dvalartíma gestanna eða heildarfjölda gistinátta á síðasta ári. Túristi hefur ítrekað beðið upplýsingafultrúa Airbnb um þær tölur en fær ávallt neitun. Í tölunum fyrir árið 2016, sem þó eru ekki opinberar, kemur fram að gestir Airbnb í hittifyrra hafi að jafnaði gist á Íslandi í 2,5 nætur. Ef við gefum okkur að meðaldvalarlengdin hafi verið sú sama í fyrra þá hafa gistinætur Airbnb á Íslandi í fyrra verið rétt rúmlega 1,9 milljón.

Það er sama tala og Hagstofan gefur sér að Airbnb og aðrar álíka þjónustur hafi selt af gistingu hér á landi í fyrra. Og ef umsvifin hafa verið þessi þá ljóst að Airbnb á ennþá langt í land með að ná hótelunum að stærð. Á hinn bóginn þá þýðir þetta hugsanlega ofmat í skýrslu Íslandsbanka, á umsvifum Airbnb, að meðaldvalartími ferðamanna hér á landi hefur styst en ekki staðið í stað líkt og fullyrt er í skýrslu bankans.

Þess ber svo að geta að Airbnb selur ekki aðeins gistingar í heimahúsum, tjöldum og bílum heldur líka á gistihúsum og jafnvel hótelum. Hluti af sölunni kemur því fram í opinberri skráningu á gistingu og svo verður heldur ekki horft fram hjá því að hluti af Airbnb gistingu í heimahúsum er í samræmi við lög og er því ekki óskráður.