Gæti orðið ár breytinga hjá fleirum en Icelandair

Tekjurnar hækkuðu um fimmtung hjá Icelandair samsteypunni fyrstu þrjá mánuði ársins en tapið jókst líka. Óvissa ríkir um þróun fargjalda jafnvel þó olíuverðið hafi hækkað mikið.

Hin nýja Boeing MAX þota sem Icelandair tók nýverið í notkun. Mynd: Boeing

Fyrsti fjórðungur hvers árs er vanalega sá þyngsti í rekstri flugfélaga enda færri á ferðinni þá en aðra mánuði ársins. Páskarnir sem voru um síðustu mánaðarmót hafa þó verið ákveðin búbót og gera má ráð fyrir að þoturnar hafi verið þéttsetnar síðustu dagana í mars. Í uppgjöri Icelandair Group fyrir fyrsta ársfjórðung, sem birt var í gær, kemur fram að tekjur fyrirtæksins námu um 27 milljörðum á tímabilinu sem var aukning um 21% frá sama tíma í fyrra. Hins vegar jókst tapreksturinn og nam heildartapið um 3,5 milljörðum króna sem, í krónum talið, er aukning um nærri hálfan milljarð.

Í tilkynningu frá Icelandair Group er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra, að rekstrarniðurstaðan hafi verið í takt við áætlanir og gert hafi verið ráð fyrir auknu tapi. „Fjárhagsstaða félagsins er áfram sterk og fjármögnun á nýjum flugvélum félagsins hefur gengið mjög vel.“ Hann bætir því við að spennandi tímar séu framundan fyrir fyrirtækið en yfirskrift tilkynningarinnar var „Ár breytinga“ og þar væntanlega vísað í endurnýjun flugflota fyrirtækisins og umtalsverðar skipulagsbreytingar á stjórn fyrirtækisins.

Óvissa um farmiðaverð

Nýjar þotur og breytt skipulag eru þó ekki einu breytingarnar sem gerðar hafa verið hjá Icelandair því flugfélagið hefur umbylt fargjöldunum. Þannig bjóðast í dag farmiðar án farangursheimildar og eins heyrir Economy Comfort fargjaldið nú sögunni til. Þessar breytingar og aðrar hafa orðið til þess að búið er að selja lægra hlutfalla flugsæta á tímabilinu apríl til desember í ár samkvæmt því sem segir í þeim skýringum sem fylgdu ársfjórðungs uppgjörinu. Þar kemur jafnframt fram að meiri óvissa ríki um tekjuspá ársins.

Af því má ráða að hækkandi fargjöld liggi ekki endilega í loftinu þó olíuverð hafi hækkað um nærri helming síðastliðna 12 mánuði. Icelandair, sem er að stórum hluta varið fyrir hækkunum á olíuverði, borgaði samtals um 5 milljarða fyrir þotueldsneyti á fyrsta fjórðungi ársins sem er aukning um 31% prósent frá sama tíma í fyrra. Til samanburðar þá hækkaði eldsneytisreikningurinn hjá Norwegian, stærsta norræna flugfélaginu, um 48% á fyrsta fjórðungi ársins. Þar spilar inn í að umsvif félagsins hafa aukist en hækkandi olíuverð vegur þyngst. Norska flugfélagið hefur vanalega verið með litlar eða engar varnir varðandi olíuinnkaup og þeirri stefnu hefur til að mynda WOW air einnig fylgt. Í viðtali við Túrista nýverið sagði Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, að hann sæi ekki fyrir sér að fargjöld færu hækkandi þrátt fyrir hækkandi olíuverð. Ástæðan væri sú að samkeppnin yrði áfram hörð.

Ókyrrð framundan

Kaup á þotueldsneyti vega samt þungt í rekstri flugfélaga og gera spár IATA, alþjóða samtaka flugfélaga, ráð fyrir að hlutfall olíu, í heildarkostnaði flugfélaga, verði rúmur fimmtungur í ár. Og þessi mikla hækkun sem orðið hefur á olíuverði mun reynast evrópskum flugfélögum erfið að mati forsvarsmanna Ryanair, stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu. Í vikunni spáði til að mynda Kevin Jacobs, yfirmaður markaðsmála hjá írska flugfélaginu, því að gjaldþrotum flugfélaga í álfunni myndi fjölgi næstu þrjú ár vegna hækkandi olíuverðs.

Á það hefur líka verið bent að olíuverð hefur verið óvenju lágt undanfarin ár og það hefur gert flugfélögum kleift að auka umsvif sín og bjóða lægri fargjöld en áður hafa þekkst. Hið hækkandi olíuverð gæti hins orðið til þess að óhagstæðari flugleiðir verði felldar niður og að fleiri evrópsk flugfélög sameinist. Þróunin verði þá álíka og í Norður-Ameríku þar sem stóru flugfélögin sitja á 70 prósent af markaðnum. Hlutfall þeirra stærstu í Evrópu er miklu lægra. Af þessu má sjá að árið í ár verður ólíklega bara ár breytinga hjá Icelandair heldur líka í evrópskum fluggeira. Nærtækt dæmi um þá þróun er sú barátta sem nú á sér stað um yfirráðin í Norwegian.