Bæði íslensku millilandaflugfélögin komin til Cleveland

Í nærri áratug hafa íbúar Cleveland ekki getað flogið beint úr heimabyggð til Evrópu. Nú geta þeir hins vegar valið á milli ferða Icelandair og WOW air.

Cleveland Metroparks. MYND: KEITH BERR / THISISCLEVELAND.COM

Það var bara tímaspursmál að eitthvað flugfélag myndi átta sig á möguleikunum í Cleveland sagði Todd Payne, hjá flugvelli borgarinnar, í samtali við Túrista í sumarlok þegar ljóst var að bæði íslensku flugfélögin ætluðu að hefja flug til borgarinnar. Vísaði hann til þess að í fyrra hafi 108 þúsund farþegar flogið frá Cleveland til Evrópu og Miðausturlanda eftir að hafa millilent annars staðar í Bandaríkjunum á leiðinni yfir hafið. Ástæðan fyrir þessari miklu eftirspurn eftir Evrópuflugi mun vera sú að íbúar borgarinnar eiga rætur að rekja til margra landa í Evrópu og eins er meðalaldur borgarbúa ekki hár.

Í byrjun þessa mánaðar fór svo WOW air jómrúarferð sína til borgarinnar og í gær var röðin komin að Icelandair. Þar með stendur Evrópuflug íbúum Cleveland á ný til boða en það var síðast á boðstólum árið 2009.

Með Cleveland eru borgirnar sem Icelandair flýgur til í Norður-Ameríku orðnar 23 talsins en borgin er ein fimm nýrra borga í álfunni sem flugfélagið bætir við leiðakerfi sitt nú í vor. Hinar eru Baltimore, Kansas City, Dallas og San Francisco.

Í jómfrúarferð Icelandair í gær var á flogið á nýrri Boeing 737-MAX vél sem ber heitið Látrabjarg.